Saint Paul Edeh, sem hefur verið uppnefndur „Dýrlingurinn“, hefur verið sviptur atvinnuleyfi í leigubílaakstri sem hann hafði hjá Samgöngustofu.
Þetta herma heimildir mbl.is en Vísir greindi fyrst frá.
Þann 14. ágúst vakti Friðrik Einarsson, sjálfstitlaður leigubílaaktívisti, athygli á því á Facebook-reikningi sínum, Taxý Hönter, að Saint Paul Edeh hefði krafið tvo kvenkyns ferðamenn um 77 þúsund krónur til að leysa út farangur sinn.
Það sem vakti þó ekki síst athygli var myndbandið af atvikinu sem Friðrik birti sem sýndi Saint Paul skella afturhlera bílsins á höfuðið á einni konunni. Sagði hann konunum enn fremur að fara „til helvítis“.
Í kjölfarið er óhætt að segja að mikil umræða hafi blossað upp í samfélaginu um leigubílamarkaðinn og viðkomandi leigubílstjóra, en Paul Edeh hefur oft verið sakaður um vafasama viðskiptahætti af Friðriki sem hefur áður birt myndskeið af manninum.
Þórhildur Elín Elínardóttir, upplýsingafulltrúi Samgöngustofu, segir í samtali við mbl.is að Samgöngustofa tjái sig ekki um einstök mál.
„Allir sem eru með leyfi til að reka eða starfa á leigubíl eru listaðir upp á vefnum okkar. Þannig ef einhver er ekki þar þá er viðkomandi ekki með leyfi,“ segir Þórhildur, en Paul Edeh er ekki lengur á vefsíðu Samgöngustofu.
