Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, hefur sem staðgengill Jóhanns Páls Jóhannssonar, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, kynnt til samráðs tillögu um flokkun Hamarsvirkjunar í biðflokk verndar- og orkunýtingaráætlunar.
Málið hefur verið kynnt í samráðsgatt stjórnvalda.
Fram kemur að þann 10. mars hafi verkefnisstjórn skilað verndar- og orkunýtingaráætlunar tillögu að flokkun fimm nýrra virkjunarkosta. Um sé að ræða virkjunarkostina Bolaöldu, Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun, Skúfnavatnavirkjun og Hamarsvirkjun. Í tillögunni sé lagt til að Hamarsvirkjun verði flokkuð í verndarflokk.
Þá segir að í 5. mgr. 10. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, komi fram að ráðherra taki tillögu verkefnisstjórnar til skoðunar og gangi frá tillögu um verndar- og orkunýtingaráætlun í samræmi við 3. gr. laganna. Ef lagðar séu til breytingar á tillögu verkefnisstjórnar skuli leita umsagnar og kynna breytingarnar almenningi áður en tillagan sé lögð fram á Alþingi.
„Settur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að setja breytingu á tillögu verkefnisstjórnar í samráðferli, þess efnis að Hamarsvirkjun verði flokkuð í biðflokk áætlunarinnar,“ segir í samráðsgáttinni.
Enn fremur segir að ekki sé lögð til breyting á tillögum verkefnisstjórnar á flokkun Bolaöldu, Tröllárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun.
Þá segir að gert sé ráð fyrir að tillaga til þingsályktunar um breytingu á verndar- og orkunýtingaráætlun verði lögð fram á Alþingi á 157. löggjafarþingi í haust.
Í fylgiskjali kemur fram að af umsögnum umsagnaraðila við tillögu verkefnisstjórnar áætlunarinnar megi sjá að sveitarfélög á svæðinu leggist gegn flokkun Hamarsvirkjunar í verndarflokk.
„Meðal annars er vísað til þess að raforkukerfið á Austurlandi sé veikburða, skortur sé á framboði á raforku á svæðinu og slíkt hamli atvinnuuppbyggingu. Nú þegar hefur skortur á raforku áhrif á atvinnulíf á svæðinu og mikilvægt að fjölga virkjunarkostum innan þess, sérstaklega með hliðsjón af orkuspá og þörf fyrir græna sjálfbæra orku. Þá hefur efnahagslegur ávinningur virkjunarkostsins verið metinn nokkuð jákvæður.“
Þá kemur fram að ójafnvægi sé nú á milli framboðs og eftirspurnar á raforkumarkaði, sem hafi leitt til verulegra verðhækkana.
„Að mati Landsnets eru meiri líkur en minni á raforkuskorti á næstu árum, þar sem grípa gæti þurft til skömmtunar fyrir heimili og fyrirtæki. Framkvæmdir við stór og hagkvæm verkefni hafa tafist verulega og óvissa ríkir um marga virkjunarkosti vegna jarðhræringa. Í ljósi þessa er sérstaklega brýnt að forgangsraða skoðun og frekari rannsóknum á virkjunum sem staðsettar eru utan helstu umbrota- og hamfarasvæða, þar sem þær geta tryggt öruggt framboð raforku óháð náttúruvá á öðrum svæðum. Í þessu sambandi er vert að nefna að virkjanakostir á Austurlandi eins og Hamarsvirkjun, eru staðsettir utan allra helstu umbrota- og hamfarasvæða Íslands og bjóða því upp á möguleika til að tryggja betur langtímaöryggi raforkuframleiðslu verði hamfarir á öðrum svæðum landsins,“ segir enn fremur.