Kópavogsbær mun innleiða samræmd próf í grunnskólum á því skólaári sem nú er að hefjast. Lokanámsmat í 10. bekk verður endurmetið og áhersla lögð á að auka samræmi milli skóla við framkvæmd námsmats.
Í tilkynningu frá bæjaryfirvöldum segir að ákvörðun um þetta sé tekin í kjölfar víðtæks samráðsferlis, en ráðist var í það síðasta haust eftir afhjúpandi umfjöllun Morgunblaðsins og mbl.is um slæma stöðu grunnskólakerfisins í landinu.
Ásdís Kristjánsdóttir sagði þá að viðurkenna þyrfti að mistök hefðu verið gerð í menntakerfinu.
Heimsótti hún alla tíu grunnskóla bæjarins og fram kemur í tilkynningunni að rætt hafi verið við yfir 300 skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra í þeirri vinnu sem í hönd fór.
Liggja nú fyrir 16 umbótaaðgerðir sem eiga að svara með skýrum hætti ákalli skólasamfélagsins, nemenda og foreldra.
Á meðal lykilaðgerða eru innleiðing samræmdra stöðu- og framvinduprófa í 4.-10. bekk í öllum skólum Kópavogs, þróun nýs námsumsjónarkerfis sem á að veita betri yfirsýn yfir námsframvindu og skýrara námsmat með áherslu á uppbyggilega endurgjöf.
Þá er áhersla lögð á að fjölga fagmenntuðum kennurum og styðja við helgun kennara í starfi.
„Með þessum aðgerðum viljum við tryggja að skólar í Kópavogi séu áfram í fremstu röð og leiðandi í umbótum í skólastarfi. Ég heyrði í heimsóknum mínum sterkt ákall þess efnis að foreldrar og nemendur vilji fá betri mynd af stöðu og framvindu í námi,“ er haft eftir Ásdísi í tilkynningu.
„Því munu nemendur í Kópavogi fara ár hvert í samræmd stöðu- og framvindupróf frá 4.-10.bekk og nýtast niðurstöður þeirra kennurum, nemendum og foreldrum til að styðja betur við nám og framfarir nemenda. Við leggjum sérstaka áherslu á að fjölga fagmenntuðum kennurum og styrkja samstarf heimilis og skóla. Við hlustum á skólasamfélagið og foreldra og erum nú að bregðast við með markvissum og faglegum hætti.“
Meðal þeirra aðgerða sem ráðist verður í eru:
Fram kemur að ábendingar hafi borist frá foreldrum, sem hafi tekið þátt í að móta tillögurnar, og að áfram verði leitað til þeirra við innleiðinguna.
„Foreldrar gegna lykilhlutverki í að styðja við nám barna sinna og eiga að hafa skýra yfirsýn yfir námsstöðu þeirra. Með því að innleiða samræmd stöðu- og framvindupróf samkvæmt Matsferli MMS skapast traustari grunnur fyrir foreldra og skóla til að fylgjast með framvindu og styðja börnin markvisst í náminu,“ er haft eftir Karen Rúnarsdóttur, formanni stjórnar Samkóp og fulltrúa foreldra í samráðshópi umbótaverkefna.
„Það er því fagnaðarefni að Kópavogsbær hyggist stíga þetta mikilvæga skref strax á næsta ári og bæta um betur með því að hafa prófin árlega í öllum skólum bæjarins. Ég hlakka einnig til að prófa nýtt námsumsjónarkerfi og treysti því að það verði til þess að efla enn frekar gott samstarf milli heimila og skóla.“
Loks er tekið fram að til að styðja kennara í þessu hlutverki muni Kópavogsbær leggja enn meiri áherslu á símenntun og þróun námskeiða sem byggi á þörfum kennara og skólasamfélagsins.
Sérstök áhersla verði lögð á greinar þar sem skortur er á kennurum, svo sem í náttúrufræði og stærðfræði. Þá verði kennarar virkir þátttakendur í þróun og innleiðingu nýs námsumsjónarkerfis.
„Við í kennarasamfélaginu fögnum aðgerðum til umbóta í skólamálum í Kópavogsbæ. Við blasir að kennarar munu gegna lykilhlutverki í að hrinda umbótunum í framkvæmd og mikilvægt að halda áfram samráði við skólastjórnendur, kennara og foreldra til að tryggja að þær skili raunverulegum árangri,“ er haft eftir Brynjari Marinó Ólafssyni, skólastjóra Snælandsskóla.
„Tækifæri felast í aðgerðum sem þessum til að aðlaga betur kennslu að ólíkum þörfum nemenda og veita uppbyggilega og hvetjandi endurgjöf í námsmati.“