Gert er ráð fyrir meðferðarheimilið Lækjarbakki verði opnað á ný í Gunnarsholti í Rangárþingi í lok ársins eða byrjun þess næsta. Ef áætlanir standast mun endurbótum á húsnæðinu ljúka í síðasta lagi í lok nóvember.
Þetta segir Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, í samtali við mbl.is. Framkvæmdir ganga vel og ekkert óvænt hefur komið upp frá því að í ljós kom í sumar að asbest væri í húsnæðinu. Það hefur ekki tafið framkvæmdir en krefst þess að verktakar þurfa að nota viðeigandi hlífðarbúnað við meðhöndlun og hreinsun.
Áður hafði verið gert ráð fyrir að heimilið yrði opnað í lok september eða byrjun október, en framkvæmdir hafa eitthvað dregist og seinkun verður því á opnun.
„Ég leyfi mér næstum að segja að það verði bylting. Það mun breyta rosalega miklu. Þá komumst meira út úr því ástandi sem við höfum verið í,“ segir Funi um áhrif opnunar Lækjarbakka, en mikið úrræðaleysi hefur ríkt síðustu misseri í málefnum barna með fjölþættan vanda. Neyðarástandi hefur ítrekað verið lýst yfir í málaflokknum og umboðsmaður barna hefur krafist tafarlausra úrbóta.
Lækjarbakka, sem er langtímameðferðarheimili fyrir drengi með fjölþættan vanda, var lokað vegna myglu í apríl á síðasta ári. Ekki hefur því verið starfrækt langtímameðferðarheimili fyrir drengi hér á landi í rúmt ár. Einhverjir drengir hafa þó verið í langtímameðferð á Stuðlum, en þeir foreldrar sem mbl.is hefur verið í sambandi við hafa verið ósáttir við það úrræði.
Vilja þeir meina að lítið meðferðarstarf fari þar fram og aðgengi að fíkniefnum sé mikið. Þá hefur starfsfólk einnig lýst ófremdarástandi sem þar hefur skapast vegna einstaklinga með of ólíkan vanda sem hafðir eru þar saman.
Dæmi eru um að foreldrar hafi farið með syni sína í kostnaðarsama meðferð í útlöndum vegna úrræðaleysis hér heima. Stúlkur fara hins vegar í langtímameðferð á Bjargey í Eyjafirði.
Sex meðferðarpláss fyrir drengi verða á Lækjarbakka í Gunnarsholti.
Funi segist gera ráð fyrir því að auglýsa eftir starfsfólki í september svo allt verði klárt þegar húsið fæst afhent. Þá er búið að kaupa eitthvað af húsgögnum.
Gert er ráð fyrir að þeir drengir sem nú eru í langtímameðferð á Stuðlum fari yfir á Lækjabakka um leið og opnað verður, en Funi segir í raun engan dreng formlega á biðlista eftir langtímameðferð hjá þeim núna.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
