Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, segir að gömlu samræmdu prófin hafi verið hætt að virka. Spurður af hverju þau voru hætt að virka kveðst hann ekki „nenna“ að athuga af hverju.
Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Í viðtalinu var farið yfir stöðuna í menntakerfinu á Íslandi og þegar hann lét þessi ummæli falla var umræðan farin að snúast um samræmd próf, en samræmdu könnunarprófunum var varpað fyrir róða fyrir nokkrum árum. Í staðinn á að koma svokallaður matsferill á vegum Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu.
„Við erum að koma þessum gagnagrunni á, sem er bylting,“ sagði ráðherrann og hélt áfram:
„Við erum að setja samræmd próf, en að vísu í nútímanum. Það var einhver sem vildi bara fá gömlu samræmdu prófin sem voru áður. Þau voru búin, þau virkuðu ekki,“ sagði Guðmundur.
Lilja Katrín Gunnarsdóttir, einn af þáttstjórnendunum, spurði þá menntamálaráðherra af hverju gömlu samræmdu prófin virkuðu ekki.
„Ég nenni ekki einu sinni að gá að því hvers vegna,“ svaraði hann.
Jón Pétur Zimsen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur deilt upptökunni á samfélagsmiðlum þar sem hann spyr:
„Er hægt að bjóða börnunum okkar upp á þetta?“
Allt eðlilegt hér.
— Jon Petur Zimsen (@JPZimsen) August 21, 2025
Er hægt að bjóða börnunum okkar upp á þetta? pic.twitter.com/cYPxyLf0r0
