Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin bæta lítillega við sig samkvæmt nýrri skoðanakönnun Maskínu en aðrir flokkar dala lítillega.
Þetta kemur fram í könnun Maskínu sem Vísir greinir frá.
Fylgi flokkanna breytist lítið milli mánaða og hreyfist hjá öllum innan við eitt prósentustig. Samfylkingin er áfram langstærsti flokkurinn með 31,6% fylgi, en Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 18,6%. Þetta eru einu flokkarnir á þingi sem bæta við sig fylgi á milli mánaða samkvæmt Maskínu.
Viðreisn mælist með 16,1% fylgi og Miðflokkurinn 9,6% fylgi. Framsókn og Flokkur fólksins mælast báðir með 6,3% fylgi.
Píratar mælast með 4,5% fylgi og Vinstri græn 4,2% fylgi. Sósíalistar mælast nú einungis með 2,6% fylgi.
Í síðasta mánuði greindi Vísir frá því að samkvæmt Maskínu hefði Sjálfstæðisflokkurinn hrunið niður í 15,7% fylgi dagana eftir þinglok. Maskína framkvæmdi þá tvær kannanir, eina vikuna fyrir beitingu kjarnorkuákvæðisins og eina dagana eftir þinglok. Samanlagt úr báðum könnunum mældist flokkurinn með 18% fylgi, en í seinni könnuninni fór hann niður fyrir 16% eins og fyrr segir.
Ef marka má það þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn bætt við sig mestu fylgi síðastliðinn mánuð.
