Framferði Ingólfs „fyrir neðan allar hellur“

Prófessor emeritus við Háskóla Íslands (HÍ) segir að at­vik í HÍ, þar sem þaggað var niður í er­lend­um fræðimanni, sé árás á mál- og rannsóknarfrelsi og að áminna ætti aðjunkt við háskólann sem tók þátt í mótmælunum.

Þetta segir Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands (HÍ), í nýjasta þætti Dagmála. 

„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á því að það hafi allir rétt á að mótmæla. Fundarfrelsi og málfrelsi eru stjórnarskrárvarin réttindi á Íslandi. En þetta fólk var ekki að mótmæla. Það var að þagga niður í manni. Það var að koma í veg fyrir að hann fengi að segja nokkuð,“ segir Hannes um atvikið. 

Árás á málfrelsið

Miðviku­dag­inn 6. ág­úst mætti Gil S. Ep­stein, pró­fess­or við Bar-Ilan-há­skól­ann í Ísra­el, í HÍ til að halda fyr­ir­lest­ur um gervi­greind. Hóp­ur mót­mæl­enda kom í veg fyr­ir að er­indið gæti farið fram og var fyr­ir­lest­ur­inn blás­inn af eft­ir 20 mín­út­ur. Ástæðan var sú að pró­fess­or­inn starfar við ísra­elsk­an há­skóla.

Mótmælendurnir hrópuðu í hvert sinn sem Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við HÍ, tók til máls eða þegar Epstein tók til máls. 

„Þannig að það fyrsta sem við þurfum að hafa í huga er að það var ekki verið að mótmæla neinu, það var verið að þagga niður í manni og þetta var auðvitað árás á málfrelsið. En þetta var líka árás á rannsóknarfrelsi vegna þess að þegar þú ert á svona málstofu þá er þáttur í þínum rannsóknum að geta átt í frjórri rökræðu við sérfræðinga frá útlöndum,“ segir Hannes. 

Háskóli Íslands.
Háskóli Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

Segir Ingólf vera gyðingahatara

Ingólf­ur Gísla­son, aðjunkt við HÍ, tók þátt í mót­mæl­un­um og skrifaði á sam­fé­lags­miðla að það hefði verið „sniðgöngu­sig­ur“ að fyr­ir­lest­ur­inn hefði verið blás­inn af.

Hvað finnst þér um það að akademískur starfsmaður skuli taka þátt í svona þöggunartilburðum gagnvart öðrum fræðimanni?

„Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur og ég sagði það í færslu á Facebook að rektor yrði að áminna þennan mann því að hann væri þarna að ráðast á málfrelsi og rannsóknarfrelsi annarra háskólamanna,“ segir Hannes og bætir við:

„Síðan kemur í ljós þegar Facebook-síðan hans er skoðuð að hann er líka gyðingahatari. Hann segir beinlínis á þessari síðu sinni að hann vilji að Ísraelsríkið fari til helvítis. Það er ekkert hægt að skilja það öðruvísi en svo að hann telji að það eigi að uppræta eða útrýma Ísraelsríki, og það held ég að sé eðlileg skilgreining á gyðingahatri.“

Í viðtalinu er farið um víðan völl.
Í viðtalinu er farið um víðan völl. mbl.is/María

Hamas hafi engan áhuga á að vernda líf Palestínumanna

Það myndu nú kannski sumir mótmæla því að þú megir ekki andmæla Ísrael. Er ekki í lagi að gagnrýna ísraelsk stjórnvöld eins og öll önnur stjórnvöld?

„Að sjálfsögðu, og ég er alveg sannfærður um það að þau fara fram af mikilli hörku og að margir saklausir óbreyttir borgarar falli. En við þurfum að átta okkur á aðstæðunum, sem eru þær að Hamas, sem eru hryðjuverkasamtök, fela sig á bak við óbreytta borgara. Þeir leynast á bak við þá, þeir dreifa sér um og það er mjög erfitt að hafa hendur í hári þeirra á meðan þeir eru þarna innan um óbreytta borgara. Þeir voru til dæmis á sjúkrahúsum og í skólum. Hamas hefur engan minnsta áhuga á að vernda líf palestínskra borgara,“ segir Hannes.

Her­mann Nökkvi Gunn­ars­son, blaðamaður á Morg­un­blaðinu, ræðir við Hann­es um ýmis mál­efni líðandi stund­ar í nýj­asta þætti Dag­mála. Farið er um víðan völl í viðtal­inu og meðal ann­ars er rætt um tján­ing­ar­frelsið, Ísra­el og Palestínu, Don­ald Trump og póli­tíska þróun í Evr­ópu. Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert