Framkvæmdir á Stuðlum tefjast meira

Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, segir Stuðla verða …
Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu, segir Stuðla verða öruggasta húsnæðið að framkvæmdum lýkur. Samsett mynd/Karítas/Árni Sæberg

Ljóst er að framkvæmdir á meðferðarheimilinu Stuðlum munu tefjast eitthvað fram á næsta ár. Þar er bæði verið að endurbyggja álmu fyrir neyðarvistun, sem gjöreyðilagðist í bruna í október á síðasta ári, og breyta húsnæðinu þannig það henti betur fyrir gæsluvarðhald barna, afplánun og sem úrræði fyrir sérstaklega erfið tilfelli.

Upphaflega stóð til að framkvæmdum myndi ljúka um áramótin, en frá því bruninn varð á síðasta ári, þar sem 17 ára piltur lést, hefur hluti meðferðardeildar Stuðla verið notaður undir neyðarvistun.

Á tímabili voru börn einnig neyðarvistuð á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, en það úrræði þótti óboðlegt börnum. Endurbyggingu tveggja neyðarvistunarrýma var því flýtt á Stuðlum og var notkun Flatahrauns hætt í apríl síðastliðnum. Enn á þó eftir að ljúka endurbótum á álmunni fyrir neyðarvistun.

Gerir ráð fyrir að útboð dragist

„Við höldum áfram þeirri vegferð að Stuðlar verði ein stór neyðarvistun og staður fyrir gæsluvarðhald og slíkt. Afplánun getur farið fram þar og annars staðar,“ segir Funi Sigurðsson, framkvæmdastjóri meðferðarsviðs Barna- og fjölskyldustofu. Vísar hann þar þess að mismunandi úrræði séu við hæfi eftir því á hvaða stað barnið er statt. Það verður því ekki algilt að öll afplánun fari fram á Stuðlum.

„Fyrstu metrar í gæsluvarðhaldi, það myndi alltaf byrja á Stuðlum. Miðað við breytingaráformin á því húsi ætti það að verða öruggasta húsið okkar.“

Funi segir ekki hægt að segja til um hvenær nákvæmlega framkvæmdum lýkur á Stuðlum, en í ljósi þess hve framkvæmdirnar eru umfangsmiklar má gera ráð fyrir töfum.

„Þetta er viðamikil og stór framkvæmd, burtséð bara frá brunahlutanum. Ef það á að breyta húsinu með tilliti til þessarar starfsemi þá er það stórt. Það þarf að fara í útboð og ég á von á því að það dragist eitthvað.“

Opnun Lækjarbakka léttir á pressunni

Um leið og meðferðarheimilið Lækjarbakki verður opnað á ný í Gunnarsholti í Rangárþingi mun staðan þó batna töluvert að sögn Funa. „Það léttir á pressunni, við getum útvíkkað neyðarvistunina og erum betur í stakk búin að takast á við það sem kemur. Þá er meðferðardeildin ekki teppt af börnum.“

Líkt og greint var frá á mbl.is fyrr í vikunni er gert ráð fyrir að framkvæmdum í Gunnarsholti ljúki í lok nóvember og að hægt verði að hefjast starfsemi þar í desember eða janúar. Þar verður tekið á móti drengjum með fjölþættan vanda í langtímameðferð, en síðasta rúma árið, eða frá því Lækjarbakka var lokað í apríl í fyrra vegna myglu, hafa einhverjir drengir verið í langtímameðferð á Stuðlum. Þeir drengir sem nú eru á Stuðlum munu því væntanlega verða fluttir í Gunnarsholt.

Stuðlar voru komnir að þolmörkum

Haustið 2024 var lagt til, sem hluti af aðgerðum gegn of­beldi meðal barna og gegn börn­um, að farið yrði af stað í und­ir­bún­ing á vist­unar­úr­ræði vegna afplán­un­ar sak­hæfra barna og vegna al­var­leg­ustu mála barna sem eru hættu­leg sjálf­um sér og öðrum. Sem og vist­unar­úr­ræði fyr­ir börn með al­var­leg­an hegðun­ar­vanda sem þurfa gæslu all­an sól­ar­hring­inn. Enda kom það í ljós við reglu­legt mat á stöðu meðferðarúr­ræða Barna- og fjölskyldustofu snemma árs 2024 að Stuðlar væru komn­ir að þol­mörk­um.

Gert er ráð fyr­ir að um­rætt vist­unar­úr­ræði verði á Stuðlum og um er að ræða breyt­ing­ar sem staðið hef­ur til að gera á starf­semi Stuðla, en þar er ekki leng­ur boðið upp á hefðbundna meðferðar­vist­un og grein­ingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert