Yfir 310 milljónir hafa safnast í góðgerðasöfnun Reykjavíkurmaraþons Íslandsbanka. Yfir tveir milljarðar króna hafa safnast síðan söfnunin hófst árið 2006.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur.
Þá er enn þá hægt að heita á góð málefni fram á miðnætti, mánudaginn 25. ágúst.
Metaðsókn var í Reykjavíkurmaraþonið sem fór fram í dag en skráðir þátttakendur voru 17.786 sem er rúmlega 3000 fleiri en á síðasta ári.
„Leikar fóru þannig að í maraþoni kvenna sigraði Diana Aleksandrova frá Rússlandi á tímanum 02:35:51 sem er nýtt brautarmet í maraþoni kvenna en hún sló metið sem hefur staðið síðan 1996.
Í öðru sæti var Julia Mueller frá Bandaríkjunum og í þriðja sæti var Melissah Kate Gibson frá Bretlandi. Fljótasta íslenska konan í maraþoninu var Halldóra Ingvarsdóttir á tímanum 03:13:17 og var þar með Íslandsmeistari í maraþoni kvenna.
Í maraþoni karla sigraði Portúgalinn José Sousa annað árið í röð á tímanum 02:23:55. Í öðru sæti var Hlynur Andrésson frá Íslandi og var þar með Íslandsmeistari í maraþoni karla. Í þriðja sæti var Silviu Stoica frá Rúmeníu en hann vann hlaupið árið 2023,“ segir í tilkynningunni.
Elísa Kristinsdóttir sigraði hálfmaraþon kvenna á tímanum 01:18:32. Í öðru sæti var Íris Anna Skúladóttir og því þriðja Fanney Þorbjörg Guðmundsdóttir.
Í hálfmaraþoni karla sigraði Dagur Benediktsson á tímanum 01:12:52. Í öðru sæti var Daníel Ágústsson og í því þriðja Jón Kristófer Sturluson.
Þá sigraði Arndís Ýr Hafþórsdóttir 10 kílómetra hlaupið á tímanum 39:00. Í öðru sæti var Fríða Rún Þórðardóttir og í því þriðja Katla Rut Róbertsdóttir Kluvers.
Í 10 kílómetra hlaupi karla sigraði Baldvin Þór Magnússon á tímanum 29:34. Í öðru sæti var Mateo Dahmani frá Frakklandi og í þriðja sæti var Viktor Orri Pétursson.