Garðabær stígur skrefið með Kópavogi

Almar Guðmundsson segir að bæjaryfirvöld hafi legið yfir gögnum um …
Almar Guðmundsson segir að bæjaryfirvöld hafi legið yfir gögnum um stöðu grunnskólanema í Garðabæ. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Kristófer Liljar

Garðabær mun leggja samræmd stöðu- og framvindupróf fyrir alla grunnskólanemendur bæjarins í 4. til 10. bekk. Þetta segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri í samtali við mbl.is.

Með þessu gengur Garðabær, rétt eins og Kópavogur, lengra en skylt verður samkvæmt nýjum lögum, en þau kveða aðeins á um að prófin verði lögð fyrir í 4., 6. og 9. bekk allra grunnskóla landsins.

Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, fagnaði ákvörðun Kópavogs í samtali við mbl.is í gær.

Jafnframt sagðist hún ekki vita til þess að nein önnur sveitarfélög hefðu ákveðið að ganga jafn langt í innleiðingu prófanna. Samt sem áður mælir hún með því að prófin séu lögð fyrir í öllum sjö árgöngunum, eins og Kópavogur og Garðabær stefna á.

Alltaf verið ætlunin

Almar segir að það hafi alltaf verið ætlun bæjaryfirvalda að nýta öll þau tæki sem stofnunin skaffar til að meta námsárangur nemenda.

„Við munum leggja fyrir þessi matsferlispróf núna frá fjórða og upp í tíunda bekk, bara frá og með þeim tímapunkti þar sem þau eru klár, sem er núna í vetur,“ segir Almar og bætir við:

„Það er í sjálfu sér eitthvað sem að við höfum alltaf litið á sem sjálfsagt mál þegar svona öflugt verkfæri kemur, að nýta það til fulls.“

Sem stendur sýna gögnin aðeins árangur skóla bæjarfélagsins í heild.
Sem stendur sýna gögnin aðeins árangur skóla bæjarfélagsins í heild. mbl.is/Karítas

Skólastjórnendur ánægðir með prófin 

Þá segir Almar ánægjulegt að finna hvernig skólastjórnendur og annað fagfólk standi með bæjaryfirvöldum í þessari vegferð.

„Mér finnst skólastjórnendurnir og fagfólkið okkar vera með okkur í þessari vegferð,“ segir hann.

„Þau eru bara að fagna því með okkur að þessi tæki séu að koma og við höfum þá þessi próf, sem eru auðvitað ekki eini mælikvarðinn en mikilvægur mælikvarði, til þess að geta staðsett börnin og skólana hvern fyrir sig og svo Garðabær hafi stöðumat á því hvernig okkur gengur.“

Hafa greint gögn um stöðu barnanna

Bæjaryfirvöld í Garðabæ hafa undanfarið staðið í því að greina gögn um stöðu barna í grunnskólum bæjarins.

Almar segir að sú greining hafi meðal annars leitt í ljós að lesfimi barna í bæjarfélaginu hafi staðið í stað síðustu ár á meðan henni hefur hrakað á landinu.

Sömuleiðis virðist líðan barna í Garðabæ vera betri en almennt á landinu þó svo að fjarvistarstundum í skólum sé að fjölga.

„Við erum með sérstakt verkefni til þess að reyna að grípa inn í það,“ segir Almar sem bætir við að stefnan sé að nota gögn sem þessi meira í framtíðinni til að meta stöðuna í grunnskólum Garðabæjar.

Samræma mat í þremur árgöngum

Gögnin sýna aftur á móti aðeins árangur skóla bæjarfélagsins í heild og því er mikilvægt að innleiða sömuleiðis einstaklingsmiðaðri mælitæki eins og samræmdu prófin.

Annað sem bæjaryfirvöld hyggjast gera til þess að auka gagnsæi þegar kemur að námsmati einstakra nemenda er að samræma matskvarða.

„Í dag eru notaðar alls konar leiðir til að meta hvernig börnin standa sig en við erum að fara í vinnu í vetur við að samræma þetta í fjórða, sjöunda og tíunda bekk. Það þýðir að hæfnin á bak við bókstafinn verður hin sama hvar sem barnið býr í Garðabæ,“ segir Almar.

Vonast til að ganga lengra síðar

„Við viljum bara votta það að það heildarmat sem kennararnir nota, að það sé þá samræmt á milli skólanna okkar. Þannig að foreldrar hafi þá einkunnir eða námsmat sem endurspeglar það sem er við lýði, allavega í bænum.“

Að lokum bætir Almar við að einn daginn vonist hann til að geta gengið lengra í þessari samræmingu á námsmati, það er að hún verði ekki aðeins í þremur árgöngum eins og stefnt er að nú.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert