Ekki rætt við Lilju um formannsframboð

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, kveðst ekki hafa talað við Lilju Alfreðsdóttur, varaformann flokksins, um það hvort hún stefni á formannsframboð á flokksþingi næsta vor.

Þetta kemur fram í samtali hans við mbl.is.

Lilja Alfreðsdóttir greindi frá því við RÚV að hún íhugi að fara í framboð um formannssætið.

Sigurður Ingi segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort flýta eigi flokksþingi Framsóknarflokksins.

„Allt í föstum skorðum í Framsókn“

Sigurður kveðst fullviss um að Framsókn muni auka við fylgi sitt á næstu misserum. Flokkurinn mældist með 4,5% í síðasta þjóðarpúlsi Gallup.

„Það eru flokksmennirnir sem ákveða hver er formaður flokksins á hverjum tíma. Ekki ég eða einhver annar. Ég hef alltaf sagt að þegar kemur að flokksþingi, þá séu allir í framboði. Þeir sem vilja máta sig við það að leiða flokkinn hljóta að gefa sig fram og gefa kost á sér í það. Ég hef alltaf verið tilbúinn í það,“ segir Sigurður Ingi. 

„Við erum með ákveðið kerfi í flokknum. Miðstjórnarþingið í haust, um miðjan október, og þá er ákveðið hvenær flokksþing á að vera. Á flokksþingi er kosinn formaður og forysta flokksins. Það er allt í föstum skorðum í Framsókn.“

Ekki í vafa um fylgisaukningu Framsóknar

„Ég er ekki í nokkrum vafa um það,“ segir formaðurinn spurður hvort hann sjái fram á fylgi Framsóknar aukist. Í nýjum þjóðarpúlsi Gallup mældist flokkurinn með 4,5% fylgi.

„Ein vika er langur tími í pólitík, hvað þá margir mánuðir,“ segir Sigurður Ingi.

„Skoðanakannanir, sem gefa ekki meira en raun ber vitni, segja okkur bara einfaldlega að við þurfum að vera skýrari í okkar málflutningi. Það sem Framsókn stendur fyrir á fullt erindi til þjóðarinnar. Þetta er bara hvatning til okkar sem erum í forystu flokksins, hvort sem það er formaður, varaformaður, þingflokkurinn eða aðrir forystumenn flokksins, að vera skýrari í okkar málflutningi,“ segir Sigurður.

„Fólk, almennt í landinu, aðhyllist öfgalausa miðjustefnu sem Framsóknarflokkurinn stendur fyrir. Það er heilbrigð skynsemi að hlusta eftir slíkum sjónarmiðum þó svo að nú um stundir, bæði á Íslandi og í heiminum öllum, séu hávaði og öfgar sem ríði húsum. Þá er það ekki það sem fólk vill hafa sínum stjórnmálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert