Liggur undir feldi: „Staðan er ekki sjálfbær“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrrverandi ráðherra. Hún íhugar framboð til formanns …
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrrverandi ráðherra. Hún íhugar framboð til formanns Framsóknar á næsta flokksþingi, sem gæti farið fram fyrir áramót eða næsta vor. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar, liggur undir feldi og íhugar mögulegt formannsframboð í flokknum en hún segir stöðu flokksins ekki vera sjálfbæra. Þessa dagana fer hún um landið og á fundi við framsóknarmenn.

Þetta segir hún í samtali við mbl.is en Framsókn mældist með 4,5% fylgi í þjóðarpúlsi Gallup sem kom út í gær.

„Ég íhuga það [formannsframboð] því margir hafa skorað á mig,“ segir Lilja og bætir við að hún muni meta stöðuna gaumgæfilega.

Ferðast um landið og hittir flokksmenn

Síðasta laugardag fundaði hún með flokksmönnum á Húsavík og á laugardaginn verður hún í Borgarnesi.

„Það sem ég er núna að gera er að heyra í flokksmönnum vegna þess að augljóst er að staðan er ekki sjálfbær fyrir Framsóknarflokkinn, sem er búinn að gera sig mjög gildandi í talsvert langan tíma í sögu þjóðarinnar. Nú er það samtal við flokksmenn og grasrótina um hvað sé best að gera,“ segir Lilja.

Verður flokksþingi flýtt?

Flokksþing Framsóknar velur forystu flokksins en samkvæmt áætlun á sá fundur að fara fram næsta vor, rétt fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Í síðustu þingkosningum fékk Framsókn minnsta fylgið í sögu flokksins og í kjölfarið hafa margir Framsóknarmenn kallað eftir því að flokksfundi verði flýtt til þess grasrótin geti farið yfir stefnumálin og kosið um forystuna á nýjan leik.

Fyrr á árinu var tillaga um að halda flokksþingið fyrir áramót felld naumlega í miðstjórn Framsóknar en nú gæti verið komið annað hljóð í strokkinn í ljósi áframhaldandi fylgistaps Framsóknar. Miðstjórn fundar á ný um miðjan næsta mánuð þar sem gert er ráð fyrir því að tillaga um að flýta flokksþingi fyrir áramót verði lögð fram.

„Þetta er algjörlega í höndum grasrótarinnar. Við finnum að það eru deildar meiningar um hvort eigi að flýta þessu. Ég sagði í upphafi árs að það væri skynsamlegt út af sveitarstjórnarkosningunum,“ segir Lilja.

Sveitarstjórnarmenn spenntir fyrir komandi kosningum

Framsókn fékk mjög góða kosningu víða um land í síðustu sveitarstjórnarkosningum árið 2022.

Spurð hvort það sé ekki hætt við því að flokkurinn tapi fylgi í flestum sveitarfélögum ef fylgið tekur ekki að rísa á næstunni segir Lilja að sveitarstjórnarmenn Framsóknar séu spenntir fyrir komandi kosningum enda búnir að vera „hörkuduglegir“ í sínum störfum út um allt land.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert