Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vilja að námsmat í grunnskólum Reykjavíkur verði aftur fært í talnakvarða, að skólarnir verði símalausir og að móttökudeildum fyrir börn sem eru nýflutt til landsins verði komið á laggirnar innan þeirra.
Þetta er meðal fimm aðgerða í menntamálum sem Sjálfstæðisflokkurinn í borginni leggur til og verða teknar fyrir á borgarstjórnarfundi seinna í dag.
Fyrsta aðgerðin sem lögð er til er að frá og með vorinu 2026 verði samræmd próf lögð árlega fyrir þrjá árganga í sérhverjum grunnskóla Reykjavíkur, einn árgang á yngsta stigi, einn árgang á miðstigi og einn árgang á efsta stigi.
Þá verði samræmt lokapróf jafnframt lagt fyrir alla nemendur í 10. bekkjum grunnskólanna.
Rétt er að geta þess að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu vinnur nú að undirbúningi samræmdra stöðu- og framvinduprófa fyrir alla bekki grunnskóla frá 4. - 10. bekk en ný lög kveða á um að skylt verði að leggja prófin fyrir í a.m.k. 4., 6. og 9. bekk í öllum grunnskólum landsins.
Önnur tillaga sjálfstæðismanna er að Reykjavíkurborg leiti samstarfs við mennta- og barnamálaráðuneytið um heimildir til að byggja námsmat aftur á talnakvarðanum 1-10.
Telja höfundar tillögunnar að slíkt fyrirkomulag sé áreiðanlegra en það sem nú er í gildi.
„Námsmat í núverandi námskrá, byggt á litakóðum, táknum eða bókstöfum, er illskiljanlegt og mikil eftirspurn er eftir breytingum,“ segir í tillögunni.
Þá er lagt til að grunnskólar borgarinnar verði símalausir.
„Félagsfærni hefur farið mikið aftur en hún byggist á þjálfun. Nemendur tala miklu minna saman og hefur staðan ýtt undir einmanaleika, depurð og kvíða. Snjallsíminn er líklegasta breytan í þessu samhengi,“ segir í tillögunni.
Fjórða aðgerðin sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til er að móttökudeildum fyrir börn sem koma til landsins og ekki tala íslensku verði komið á laggirnar í grunnskólum. Þar yrði áhersla lögð á íslensku og íslenska menningu.
„Um væri að ræða brú í takmarkaðan tíma til að skólastarf þeirra og annarra gangi sem best. Markmiðið væri að mæta betur þörfum hvers barns.“
Loks er lagt til að borgin setji skýr markmið um betri árangur í PISA-prófunum og þegar kemur að læsi.
Markmiðið væri að allir nemendur sem ekki eru með námslegar hamlanir geti lesið sér til gagns og unnið með gögn og mælanleg markmið í auknum mæli til að ná því markmiði.