Dregur ekki í land í gagnrýni á Play

Jón Þór Þorvaldsson og Einar Örn Ólafsson. FíA hefur sent …
Jón Þór Þorvaldsson og Einar Örn Ólafsson. FíA hefur sent frá sér yfirlýsingu um starfshætti Play og spá um framtíðarhorfur flugfélagsins. Samsett mynd

Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, dregur ekkert undan í gagnrýni sinni á starfshætti flugfélagsins Play.

Hann spáir því að flugfélagið verði gjaldþrota, gagnrýnir „félagslegt undirboð“ og segir farþega taka áhættu með því að versla flugmiða fram í tímann.

Deilt um áhættu farþega

Auk þess að vera formaður FÍA er Jón Þór flugmaður hjá Icelandair. Viðsemjendur FÍA eru allir flugrekendur á Íslandi að Play undanskildu.

Forsaga málsins er sú að Jón Þór sagði á dögunum í samtali við Bítið á Bylgjunni að hann spáði gjaldþroti Play og að félagið væri að selja flugmiða í flugferðir sem hann segir aldrei verða flognar.

Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, svaraði því til á sama miðli að Jón Þór væri starfsmaður Icelandair og formaður flugmannafélags þeirra og að horfa þyrfti til orða hans með það fyrir sjónum.

Eins sagði hann að um dylgjur væri að ræða og ekkert sem gæfi til kynna að farþegar þyrftu að hafa áhyggjur af því að vera sviknir um flugferð ættu þeir miða.

Eingöngu í umboði FÍA

Jón Þór segir aftur á móti núna, í nýrri yfirlýsingu frá FÍA, að dylgjurnar séu Einars Arnar og að sjálfur tali hann ekki í umboði neins neme FÍA.

Segist hann hafa komið í viðtalið til að tala um kjarasamningsbrot Bláfugls sem nýlega varð gjaldþrota, en jafnframt að hann telji Play á svipaðri vegferð og Bláfugl.

Segir hann að spá hans um gjaldþrot Play byggi á því að félagið hafi glímt við stórkostlegan og samfelldan taprekstur. Ítrekað hafi komið fram fullyrðingar um væntanlegan viðsnúning í rekstri sem aldrei hafa staðist og að nýleg fjármögnun félagsins væri á afar slökum kjörum.

„Skv. fréttum eru vextirnir „með þeim hærri sem sést hafa í flugiðnaðinum á síðustu árum“ eða 17,5%. ▪ Í árshlutauppgjöri Play fyrir 2. ársfjórðung 2025 var eiginfjárstaða Play neikvæð um nærri 10 ma. króna,“ skrifar hann í yfirlýsingunni.

Nefnir hann fleira til, svo sem að fyrrverandi forstjóri Bláfugls sitji einnig í stjórn Play og að Bláfugl hafi lagt upp laupana þegar kom að því að standast skuldbindingar á íslenskum vinnumarkaði.

Byggt á heildstæðu mati 

„Spár um endalok Play á Íslandi eru því byggðar á heildstæðu mati á atburðarás sem er þekkt og þegar hafin,“ segir Jón Þór í yfirlýsingu.

Þá vindur hann sér að orðum þess efnis að farþegar taki áhættu með að hafa keypt miða að Play fram í tímann. Segir hann að mörg flug hafi verið felld niður undanfarið.

„Það er mat FÍA, byggt á reynslu, að flugfélag sem er í slíkum umbreytingarfasa sé líklegra en ella að gera breytingar með stuttum fyrirvara, sem geta sett ferðaáætlanir farþega í uppnám. Spyrjum að leikslokum,“ segir Jón Þór.

Verri staða fyrir farþega 

Loks gerir hann rekstrarleyfi Play á Möltu að umtalsefni og telur að réttindi farþega skemmist við það að hafa reksturinn þar.

„Fara viðskipti fram við flugfélag, ferðaskrifstofu eða miðasölu? Nýlegt dæmi NiceAir sýnir að réttindi farþega geta reynst mjög ótrygg þegar flug er keypt við óljósar aðstæður. NiceAir var kallað flugfélag þó svo að félagið væri ekki með flugrekstrarleyfi. Það var starfrækt með innleigu á erlendum flugrekstraraðila með flugrekstrarleyfi á Möltu og starfrækt sem sýndarflugfélag. Við þrot þess reyndist farþegum ótækt að nálgast bætur og töpuðu þeir bæði fé sínu og ferðaréttindum,“ segir Jón Þór.

Þá tiltekur Jón Þór að félagslegt undirboð hafi einkennt starfsemi Play og að starfrækt hafi verið gult stéttarfélag sem sé vinnuveitendum þóknanlegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert