Ráðist hefur verið í víðtæka umbótavinnu með það að markmiði að efla öryggi og bæta eftirlit í kjölfar brunans við Bræðraborgarstíg þar sem þrír létu lífið.
Alls hafa 12 af 13 úrbótatillögum starfshóps á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS), sem lagðar voru til þriggja ráðuneyta í kjölfar brunans, komist til framkvæmda eða eru í vinnslu. Verkinu er þó ekki lokið.
Þetta kom fram á ráðstefnunni Brunavarnir og öryggi til framtíðar sem Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Samtök iðnaðarins og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins héldu sameiginlega í morgun.
Tilefni ráðstefnunnar var að um fimm ár eru liðin frá eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg þar sem veikleikar í kerfum og regluverki komu skýrt í ljós.
Á meðal tillagna HMS var t.a.m. að skilgreindar yrðu sérstakar stöðuskoðanir byggingarfulltrúa og slökkviliðs vegna brunavarna í opinberu byggingaeftirliti. Einnig að tryggt yrði að íbúðarhúsnæði yrði ekki tekið í notkun án þess að fram hafi farið öryggisúttekt fyrir eða samhliða lokaúttekt.
Sömuleiðis að óleyfisbúseta yrði kortlögð með ítarlegum hætti og að heimildir slökkviliðs og byggingarfulltrúa til að leggja á stjórnvaldssektir vegna brota á lögum yrðu endurskoðaðar svo eitthvað sé nefnt.
Sú tillaga sem hefur ekki komist á framkvæmdastig enn felst í að ráðist verði í endurskoðun á lögum um brunatryggingar með það að markmiði að auka hvata húseigenda til að sinna brunavörnum í gegnum brunatryggingar.
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra og Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hófu ráðstefnuna með ávörpum. Auk þess héldu Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Birgir Viðarsson, framkvæmdastjóri hjá Sjóvá, Regína Valdimarsdóttir og Tryggvi Már Ingvarsson, framkvæmdastjórar hjá HMS, Aleksandra Leónardsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, og Guðni I. Pálsson, brunahönnuður hjá verkfræðistofunni COWI, erindi á ráðstefnunni.