„Þetta var í raun kerfislægt hrun“

Bruninn á Bræðraborgarstíg 25. júní 2020.
Bruninn á Bræðraborgarstíg 25. júní 2020. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sagði daginn sem bruni varð við Bræðraborgarstíg, 25. júní 2020, hafa verið átakanlegan. Hann gagnrýndi eigendur hússins sem voru með 73 skráða einstaklinga til búsetu í húsnæði sem var ekki með brunavarnir.

Þetta kom fram í máli slökkviliðsstjórans í erindi sem hann hélt á ráðstefnunni Brunavarnir og öryggi til framtíðar í morgun.

Fimm ár eru nú liðin frá eldsvoðanum á Bræðraborgarstíg þar sem veikleikar í kerfum og regluverki komu skýrt í ljós.

Aðstæður skelfilegar frá fyrstu sekúndu

Í erindinu rifjaði Jón Viðar upp þær aðstæður sem tóku á móti slökkviliðsmönnum er þeir komu á vettvang.

Hann sagði ráðandi þætti á vettvangi hafa t.a.m. verið að stigahúsið hafi verið orðið reykfullt er slökkvilið kom. Flóttaleiðir höfðu þá lokast á sekúndum. Sömuleiðis breiddist eldurinn hratt um ris húsnæðisins.

„Ástæðan fyrir þessu er að húsið hafði í raun engar virkar brunavarnir. Það var búið að taka allar brunavarnir og allt út úr húsinu, algjörlega óháð aldri. Þú mátt ekki breyta húsinu nema það fari í gegnum ákveðið regluverk.“

Jón rifjaði upp að vegna hinna erfiðu aðstæðna þurfti að meina slökkviliðsmönnum að fara inn í bygginguna þar sem það myndi setja þá í hættu. Þá hafi aðstæður á vettvangi verið skelfilegar frá fyrstu sekúndu.

„Þetta situr í fólki í mörg ár ef það nær einhvertímann að losa sig frá þessu,“ sagði Jón Viðar.

„Þetta situr í fólki í mörg ár ef það nær …
„Þetta situr í fólki í mörg ár ef það nær einhvertímann að losa sig frá þessu,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kerfislægt hrun

Hann nefndi að dýrmætur lærdómur hefði verið dreginn af aðgerðinni fyrir starfsmenn slökkviliðsins, t.a.m. varðandi andlega heilsu starfsmanna og þróun félagsstuðnings innan liðsins.

„Við þurfum líka að horfa gagnrýnum augum á okkar eigið verklag. Var eitthvað sem við gátum gert betur, hefðum við getað gert þetta öðruvísi,“ sagði Jón Viðar en nefndi svo að slökkviliðið eitt og sér gæti ekki bjargað öllum. Húsnæðið yrði að vera „kjarninn í að tryggja öryggi þeirra sem þar eru“.

„Húsið hafði í raun engar virkar brunavarnir. Það var búið …
„Húsið hafði í raun engar virkar brunavarnir. Það var búið að taka allar brunavarnir og allt út úr húsinu, algjörlega óháð aldri. Þú mátt ekki breyta húsinu nema það fari í gegnum ákveðið regluverk,“ segir Jón Viðar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var í raun kerfislægt hrun,“ sagði Jón Viðar og bætti við:

„Fólkið var ekki bara fórnarlamb eldsins heldur líka aðstæðna sem höfðu viðgengist allt of lengi. Það var búið að breyta þessu húsi hægri vinstri. Það var búið að taka allar brunavarnir og allar hólfanir frá stigahúsi. Stigahús á að vera hólfað frá öðrum rýmum þannig að þú komist út.“

Þrír létust í brunanum.
Þrír létust í brunanum. mbl.is/Arnþór

Eigendur bera ábyrgðina

Þá sagði hann það alltaf vera á ábyrgð eigenda mannvirkis að vera með brunavarnir og önnur öryggisatriði í lagi.

„Það er aldrei á ábyrgð eftirlitsaðila. Þess vegna þoli ég ekki þegar það kemur: hvar voru eftirlitsaðilarnir?

Ég segi: hvar voru eigendurnir? Þú getur ekki samið þig frá neinu með einhverjum leigusamningum eða þögn. Þú berð ábyrgðina.“

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á ráðstefnunni.
Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á ráðstefnunni. mbl.is/Birta Margrét
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert