Útilokar ekki málþóf ef þarf

Nýr þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins heitir harðri stjórnarandstöðu á komandi þingi og útilokar ekkert í því samhengi, þar á meðal málþóf. Hann bendir hins vegar á að slíkt væri óþarfi gæti ríkisstjórnin þess að koma ekki með hálfköruð mál inn í þingið og þráast ekki við lagfæringar á þeim.

Þetta kemur fram í þætti Dagmála, þar sem Ólafur Adolfsson, nýkjörinn þingflokksmaður sjálfstæðismanna, ræðir um liðið þing og það sem fram undan er.

Fram hefur komið að Ólafur hafi haft sínar efasemdir um málþófið í sumar, en hann segir að þingið hafi sett niður við það. Án þess að hann vilji kenna neinum um hafi það átt að vera óþarft, hefði ríkisstjórnin vandað sig.

Það hafi hún hins vegar ekki gert í veiðigjaldamálinu, sem augljóslega hafi verið lagt fram í flýti, samráð um það vanrækt, keyrt í gegnum nefnd, augljósir agnúar ekki sneiddir af, og reikniskekkjur ekki leiðréttar í lengstu lög.

Það að hann vilji fyrir þingsins hönd forðast málþóf þýði ekki að hann skirrist við að beita þeim fáu tækjum sem stjórnarandstaðan hafi í handraðanum og hann segir að þar sé alls ekki um „einhliða afvopnun“ að ræða. Hann heitir harðri en málefnalegri stjórnarandstöðu.

Horfa má á þáttinn allan með því að smella hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert