Rósa Guðbjartsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Þórarinn Hjartarson, hlaðvarpsstjórnandi Einnar pælingar, segja að líffræðilega séu aðeins tvö kyn. Þau leggja þó áherslu á að fólk eigi að hafa fullt frelsi til að skilgreina sig eins og það kýs.
Í nýjasta þætti Dagmála á mbl.is sátu þau saman og þar barst umræðan að spurningunni um hversu mörg kyn séu til. Eftir viðtal RÚV við þingamann Miðflokksins og málsvara Samtakanna 78 hefur mikil umræða farið af stað í samfélaginu um málefni hinsegin fólks. Meðal þess sem um er rætt er fjöldi kynja, en sumir telja að til séu fleiri kyn en karlkyn og kvenkyn.
Hvað eru mörg kyn?
„Ég tel að þau séu tvö og ástæðan fyrir því að ég tel að þau séu tvö er út af því að, þrátt fyrir að ég hafi reynt að vera sannfærður um annað, þá hef ég ekki orðið sannfærður hingað til,“ segir Þórarinn.
Hann bætir við að honum þyki sérstakt að spurningunni sé sjaldnast svarað beint og að margir, ekki síst kjörnir fulltrúar, þori ekki að taka afstöðu.
Að hans mati sé látið eins og ekkert eitt svar sé til, en um leið sé þrýstingur í samfélaginu á að eitt svar teljist rangt – að halda því fram að kynin séu tvö.
„Hvernig getur þú sagt við að þú sért með spurningu sem þú veist ekki svarið við, en þú veist þrátt fyrir það að það sé til rangt svar? Hvernig getum við búið við þann veruleika að fólk sem kallar sig umburðarlynt og er alltaf að tala um að það sé rosalega gott, um mannúð, gildi og mennsku og allt þetta dót – alltaf að tala um þetta. Svo koma fráleitar spurningar, eins og þessi, þar sem þú getur ekki sagt mér svarið við þessari spurningu. Af hverju ætti ég þá að vera að skipta um skoðun?” spyr Þórarinn.
Ég ætla nú að sitja þig [Rósu] í heita sætið. Hvað eru mörg kyn?
„Líffræðilega fæðast tvö kyn, það vitum við og ég held að það sé varla hægt að deila um það,“ segir hún en bendir þó á að til séu frábrigði og að fólk hafi rétt til að skilgreina sig með öðrum hætti.
„Ég held að það sé hvergi í heiminum jafn mikið umburðarlyndi gagnvart þeim sem að vilja á lífsleiðinni skipta um kyn og gagnvart hinsegin fólki og trans fólki,“ segir Rósa um stöðuna á Íslandi.
Rósa kveðst þekkja til dæma frá fæðingardeildum þess efnis að foreldrar hafi kosið að sleppa því að staðfesta líffræðilegt kyn nýfædds barns til að leyfa barninu að ákveða það síðar á ævinni.
Þórarinn gagnrýnir sérstaklega orð Einars Þorsteinssonar, borgarfulltrúa Framsóknar, sem hefur sagt að Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, ætti ekki að koma að opinberri stefnumótun vegna meintra fordóma.
„Er hann tilbúinn til að segja mér hvað eru mörg kyn?“ spyr Þórarinn.
Áskrifendur Morgunblaðsins geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella hér.