Ekki búin að gleyma ellilífeyrisþegum

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, flutti ræðu sína fyrir skömmu.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, flutti ræðu sína fyrir skömmu. mbl.is/Eyþór

„Nei og aftur nei, ríkisstjórnin hefur ekki gleymt ellilífeyrisþegum,“ sagði Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, í ræðu sinni í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi fyrir skömmu.

Hún sagði það standa til að hækka frítekjumark eldri borgara og að það yrði gert í áföngum samkvæmt frumvarpi sem á að koma út fyrir áramót að sögn Ingu.

Um leið tók hún fram að hún ætlaði á næstu dögum að leggja fram frumvarp sem myndi tryggja tvo milljarða króna til eingreiðslu jólabónusa sem verði sérstaklega markaður tekjulægstu öryrkjunum og ellilífeyrisþegunum. Sú greiðsla verður skattfrjáls og skerðir ekki aðrar greiðslur, að sögn Ingu.

Inga sagði ellilífeyrisþega þegar hafa fengið sínar kerfisbreytingar þann 1. janúar 2017. Þrátt fyrir það séu enn 6.000 eldri borgarar í fátækt sem valdi þeim áhyggjum, vanlíðan og kvíða, sagði Inga. 

Ekki lengur hrópandinn í eyðimörkinni

„Ég veit hvað það er erfitt að bíða, ná ekki endum saman og að geta ekki veitt sér nokkurn skapaðan hlut, hvað þá glatt ásvini sína, en við erum svo sannarlega rétt að hefja vegferðina okkar. Samhent ríkisstjórn sem vinnur af heilindum að því marki að mylja niður alla múra fátæktar,“ sagði Inga.

Hún sagði fyrirliggjandi gögn og skýrslur sýna þá nöturlegu staðreynd að öryrkjar séu þeir sem hafi setið eftir í rammgerðri gildru fátæktar um árabil.

Inga sagði Flokk fólksins ekki lengur hrópandi í eyðimörkinni, heldur haldi flokkurinn nú traustum tökum um stýri þjóðarstúkunnar ásamt samstarfsflokkum sínum.

„Við látum verkin tala. Við erum verkstjórn,“ sagði Inga Sæland um ríkisstjórnina sem hóf vegferð sína fyrir um níu mánuðum síðan.

Benti Ingi á að ríkisstjórnin hygðist leggja til 110 mál til viðbótar við þau mál sem ekki tókst að ljúka á vorþinginu, þau verði endurflutt.

Aldrei hvikað

Flokkur fólksins hefur aldrei hvikað frá hugsjón sinni að verja þá sem bágast hafa það í samfélaginu að sögn Ingu.

Í ræðu sinni sagði hún öryrkja hafa mátt bíða í 8 ár eftir nýju og manneskjulegra örorku- og endurhæfingarkerfi.

Um leið sagði Inga að öryrkjar hafi ekki fengið sömu úrbætur og ellilífeyrisþegar hafi fengið í lagaumgjörðinni árið 2016. Því hafi kjarabætur fyrir öryrkja verið löngu tímabærar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert