Viðskiptamaðurinn Quang Le hefur stefnt Landsbankanum sökum þess að hann hefur ekki haft tök á því að stofna til bankaviðskipta frá því rannsókn hófst á viðskiptaumsvifum hans í mars í fyrra.
Le er grunaður um mansal, peningaþvætti og skipulagða glæpastarfsemi og hafa eignir hans verið frystar frá því rannsókn hófst í málinu. Í stefnunni segir m.a. að hann hafi ekki getað þegið laun eða greiðslur í um eitt og hálft ár. Fram kom í frétt á mbl.is frá því í júlí að talsvert sé í að rannsókn lögreglu ljúki.
Er meðal annars byggt á því í stefnu að kynþáttur Quang Le, sem upphaflega er frá Víetnam, sé ein ástæða bankabannsins.
Í stefnunni kemur fram að Landsbankinn hafi sagt upp viðskiptum við Le þann 13. mars í fyrra í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar þar sem fram kemur að lögregla hafi hafið rannsókn á honum. Í ákvörðun bankans er vísað til laga um aðgerðir gegn peningaþvætti.
Eins tilkynnti Landsbankinn Quang Le í innlend og alþjóðleg upplýsingakerfi fjármálastofnana vegna grunsamlegrar færslu eða hegðunar stefnanda eða viðskipta, þar sem grunur léki á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka; svokallað STR (Suspicious Transaction Report) eða SAR (Suspicious Activity Report).
Quang Le hafi leitað til allra viðskiptabankanna á Íslandi í viðleitni sinni til að stofna til bankaviðskipta en þeir hafi allir hafnað honum.
Í stefnunni er vísað til tölvupósts sem Quang Le sendi bankanum þar sem hann óskaði eftir því að hefja bankaviðskipti að nýju og opna bankareikning svo hann gæti fengið greidd laun.
„Ég þarf hann til að lifa af – enginn getur lifað án bankareiknings á Íslandi,“ segir í póstinum.
Er því haldið fram að aðgangur að bankareikningi sé réttur en ekki forréttindi.
„Í nútímaheimi er bankareikningur ekki lengur bara fjármálaþjónusta; hann er grundvallarforsenda fyrir venjulegu og löglegu lífi borgaranna í samfélaginu. Án bankareiknings er ekki hægt að fá greidd laun, greiða leigu eða fá aðgang að grunnþjónustu hins opinbera. Bankareikningur er lágmarksþröskuldur aðgangs að efnahagslífi og borgaralegu samfélagi.“
Í stefnu eru nefnd ýmis sjónarmið og lagarök sem reynt verður á fyrir dómi. Í einu þeirra er því haldið fram að Quang Le sæti slíkri meðferð vegna kynþáttar síns, en hann er með íslenskan ríkisborgararétt en er upphaflega frá Víetnam.
Segir þar að Íslendingar sem eru „hvítir á hörund“ og hafi verið í svipaðri stöðu hafi ekki sætt sambærilegu bankabanni.
Málið verður þingfest á morgun. Hefur Jóni Þorvarði Sigurgeirssyni, stjórnarformanni bankans, verið stefnt fyrir hönd Landsbankans. Í stefnunni kemur fram að gert sé ráð fyrir því að starfsmenn Landsbankans sem að uppsögninni komu gefi skýrslu.
Fréttin hefur verið uppfærð.