Rödd Íslands skiptir máli á hinu alþjóðlega sviði þegar alþjóðalög eru mölbrotin á degi hverjum í Rússlandi og Palestínu. Íslendingar mega aldrei hvika frá gildum sínum.
Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra í ræðu sinni á Alþingi í umræðum í kjölfar stefnustefnuræðu forsætisráðherra í kvöld.
Þorgerður sagði grimmilegt árásarstríð Rússa í Úkraínu og blóðsúthellingar í Palestínu ekki vera fjarlæga atburði sem varði Íslendinga engu, þvert á móti eigi Íslendingar allt sitt undir því að alþjóðalög séu virt.
„Úkraínumenn sjálfir eru ekki aðeins að berjast fyrir frelsi Úkraínu heldur einnig frelsi okkar, öryggi og fullveldi. Þess vegna brugðumst við hratt við þegar þeir óskuðu eftir kæligámum til að flytja heim unga menn, konur og jafnvel börn sem hafa fallið í stríðinu. Fyrir hina hinstu kveðju ástvina,“ sagði utanríkisráðherrann.
Frelsið kostar og í Úkraínu greiðir fólk fyrir það með lífi sínu. Þorgerður segir að því hafi stjórnvöld brugðist hratt við þegar Úkraínumenn óskuðu eftir kæligámum til að flytja heim unga menn, konur og börn sem hafa fallið í stríðinu.
Við stöndum frammi fyrir því að grunngildum er stöðugt ógnað að sögn Þorgerðar. Hún segir að sótt sé að frelsinu víða; í alþjóðaviðskiptum, þegar komi að fullveldi ríkja og ekki síst frelsi fólks til að lifa og fá að vera það sjálft.
„Og þá spyrja margir hvort Ísland hafi raunveruleg áhrif í þessum stóra heimi. Skiptir rödd Íslands máli? Svarið er hiklaust já.“
Þorgerður sagði Ísland vera lítið land með sterka rödd. Ísland er staðfastur hlekkur í keðju landa sem standa með lýðræðinu, mannréttindum og friði að sögn Þorgerðar sem sagði áhrif Íslendinga liggja í því að hvika aldrei frá gildum sínum heldur standa með sjálfum sér.
„Á Gaza eru hrottalegar þjóðernishreinsanir í gangi. Um helgina voru lesin upp nöfn þeirra barna sem hafa verið drepin í árásum Ísraelhers. Það tók 11 klukkustundir,“ sagði Þorgerður í ræðu sinni.
Fjöldanum svipar til fjölda barna í öllum bekkjum, í öllum árgöngum, í öllum grunnskólum Reykjavíkur að sögn Þorgerðar. Hún sagði alla sjá að þetta ástand væri algerlega óverjandi.
„Ísland má aldrei feta þá braut, eins og gerist nú hjá hinum ólíklegustu þjóðum, þar sem mannréttindi og tilveruréttur einstaklinga er dreginn í efa heldur verðum við að tala skýrt og afdráttarlaust fyrir frelsi, fjölbreytileika og mannvirðingu. Við í Viðreisn munum aldrei gefa afslátt af þessum gildum. Aldrei. Við eigum að sigla áfram með þeim þjóðum sem tala fyrir lýðræði, virðingu fyrir alþjóðalögum, frelsi og friði,“ sagði utanríkisráðherrann.