Á síðasta fundi borgarstjórnar Reykjavíkur var samþykkt tillaga meirihlutaflokkanna þess efnis að unnið yrði með Minjastofnun að friðlýsingu menningarlandslags í Laugarnesi.
Felld var 12:11 tillaga Viðreisnar um að friðlýsingin yrði einnig unnin í í samvinnu við Veitur og Faxaflóahafnir. Borgarfulltrúar meirihlutaflokkanna greiddu atkvæði gegn þeirri tillögu.
Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna segja í bókun að það sé sérlega ánægjulegt og mikilvægt að borgarstjórn Reykjavíkur lýsi yfir vilja sínum til að friðlýsa menningarlandslagið og vinna með Minjastofnun að drögum að friðlýsingu sem stofnunin hefur lagt fram.
„Það hefur aldrei verið brýnna en nú á tímum loftslagsbreytinga og örrar uppbyggingar að stjórnvöld verndi verðmæt og viðkvæm vistkerfi, standi vörð um lífsnauðsynleg búsvæði fjölbreyttra lífvera og varðveiti menningarsögulegar minjar,“ segir m.a. í bókuninni.
Borgarfulltrúar Framsóknar bókuðu að þeir styddu að friðlýstar yrðu menningarminjar í Laugarnesi. Mikilvægt væri að hafa í huga við friðlýsingarvinnuna hvaða áhrif hún hefði á fyrirhugaða uppbyggingu á Köllunarkletti og áform Faxaflóahafna um viðlegukant vegna þróunar Sundahafnar.
„Furðulegt er að meirihlutinn skuli hafa fellt breytingartillögu um samráð við Faxaflóahafnir og Veitur,“ bókuðu framsóknarmenn.
Í rökstuðningi fyrir friðlýsingunni segir m.a. að á Laugarnestanga megi sjá áhrif mannsins á umhverfi sitt allt frá upphafi byggðar í Reykjavík fram á okkar daga. Menningarlandslag Laugarnestanga sé því mikilvægur hluti af sögu Reykjavíkur og eitt fárra svæða innan marka þéttbýlis Reykjavíkurborgar þar sem hægt er upplifa svo heildstætt menningarlandslag.
Það sem er sýnilegt á yfirborði eru minjar frá ólíkum tímabilum í sögu Íslands. Þar má m.a. sjá leifar kirkjugarðs, bæjarhóls og beðasléttna auk minja um hjáleigubúskap og sjósókn. Einnig eru leifar embættisbústaðar biskups, holdsveikraspítala og stríðsminja. Loks megi benda á mikilvægar sjónlínur milli Laugarness og Viðeyjar, þá sérstaklega Viðeyjarstofu, sem gefi svæðinu aukið menningarsögulegt gildi.
Minnst sé á Laugarnes í Njáls sögu og átti Hallgerður langbrók að hafa búið þar áður en hún kynntist Gunnari á Hlíðarenda. Þá segir munnmælasaga að hún hafi flutt aftur á nesið eftir dauða Gunnars og verið grafin þar í svonefndu Hallgerðarleiði. Elstu heimildir um kirkju á Laugarnesi eru máldagi frá 1235. Megi því leiða að því líkum að mun meira af fornleifum leynist undir yfirborði.
Frá Laugarnestanga eru enn sjónlínur að elsta húsi Reykjavíkur, Viðeyjarstofu, sem byggð var árið 1753 sem embættisbústaður Skúla Magnússonar landfógeta. Þessar sjónlínur gefi svæðinu aukið gildi. Sjónlínur að Viðeyjarstofu séu annars að nokkru leyti horfnar vegna seinni tíma bygginga.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
