Jarðskjálfti af stærðinni 3,1 mældist 12 kílómetrum austur af Hamrinum í Vatnajökli rétt fyrir klukkan 7 í morgun.
Að sögn Steinunnar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, var um stakan skjálfta að ræða en skjálftinn mældist á 4-5 kílómetra dýpi.
„Þetta var bara stakur skjálfti og það hefur ekki verið nein eftirskjálftavirkni enn sem komið er en við höldum áfram að fylgjast með þessu,“ segir Steinunn við mbl.is.
Hún segir að í desember á síðasta ári hafi mælst jarðskjálfti af sömu stærð á þessum slóðum.

