Fjöldi umsókna um skólavist við Háskólann á Akureyri frá nemendum utan Evrópska efnahagssvæðisins hefur rúmlega tvöfaldast á tveggja ára tímabili. Áslaug Ásgeirsdóttir, rektor skólans, segir þessa miklu fjölgun koma á óvart.
Árið 2023 voru umsóknir frá nemendum utan EES 59 en í ár voru þær 144. Það þýðir að umsóknum hefur fjölgað um 144% á tímabilinu.
Flestar þessara umsókna eru um meistaranám í Heimskautarétti. Árið 2023 voru umsóknir frá nemendum utan EES um inngöngu í þá námsleið 38 en í ár voru þær 68.
„Þetta hefur alveg komið okkur á óvart, eins og hinum háskólunum,“ segir Áslaug spurð út í þessa miklu fjölgun.
Greint var frá því í síðustu viku að umsóknum til útlendingastofnunar um námsmannadvalarleyfi hafi fjölgað um 40% milli ára en námsmenn sem koma til landsins frá löndum utan EES þurfa slíkt leyfi.
Þessa gífurlegu fjölgun umsókna má sennilega að hluta til skýra með myndskeiðum sem eru í dreifingu á samfélagsmiðlum á borð við TikTok. Þar er sagt frá því að háskólanám á Íslandi standi alþjóðlegum nemendum til boða að kostnaðarlausu og jafnvel að nemendur geti flutt hingað með fjölskyldum sínum.
Áslaug segir ekki ólíklegt að slík myndskeið kunni að skýra fjölgunina í HA að einhverju leyti en á TikTok má einmitt finna þó nokkur myndbönd þar sem erlendum nemendum er sérstaklega sagt frá háskólanum sem fýsilegum kosti.
Tölurnar um fjölgunina séu hins vegar nýjar af nálinni og því eigi eftir að greina þær betur.
Áslaug tekur þá fram að vinsældir námsins í heimskautarétti meðal alþjóðlegra nema séu skiljanlegar en hvergi annars staðar í heiminum er boðið upp á slíkt nám.