Landsréttur hefur staðfest tveggja og hálfs árs dóma yfir bræðrum í fíkniefnamáli. Þriðji maðurinn hlaut þriggja og hálfs árs dóm í héraði en Landsréttur mildaði dóminn í þrjú ár.
Þeir Elías Shamsudin og Jónas Shamsudin, sem eru bræður, voru ásamt Samúel Jóa Björgvinssyni ákærðir í desember fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 2943,38 grömm af MDMA-kristölum og 1.781 MDMA-töflu.
Þá var Samúel einnig ákærður fyrir að hafa í vörslum sínum í sölu- og dreifingarskyni 153,29 grömm af kókaíni, 5,10 grömm af MDMA, 223,58 grömm af metamfetamíni í kristalsformi, 22 MDMA-töflur og 788 töflur sem innihéldu fíknilyfið brómazólam ásamt því að vera gefin að sök nánar tilgreind umferðarlagabrot.
Loks var Jónas ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum 4,60 grömm af kókaíni, tvö stunguvopn og tvö höggvopn.
Með dómi héraðsdóms voru mennirnir sakfelldir samkvæmt ákæru, að því frátöldu að Elías og Jónas voru sýknaðir af því að hafa haft MDMA-töflurnar í vörslum sínum.
Var refsing bræðranna ákveðin fangelsi í tvö og hálft ár en refsing Samúels ákveðin fangelsi í þrjú og hálft ár, sem fyrr segir.
Ákæruvaldið undi héraðsdómi að því leyti sem Elías og Jónas voru sýknaðir en áfrýjaði málinu til refsiþyngingar.
Kröfur Elíasar og Samúels fyrir Landsrétti lutu einungis að ákvörðun refsingar en Jónas krafðist sýknu af I. kafla ákæru.
Um þátttöku Jónasar kom meðal annars fram í dómi Landsréttar að hún skæri sig á engan hátt frá þátttöku meðákærðu og var niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu Jónasar staðfest.
Þá var niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest um refsingu bræðranna en refsing Samúels ákveðin þriggja ára fangelsi.