Áætlað er að 112-115 þúsund fjár verði slátrað hjá Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki á þessu hausti. Fjöldinn verður svipaður í afurðastöðinni á Hvammstanga, það er sláturhúsi Kaupfélags Vestur-Húnvetninga sem er í helmingseigu KS.
Á Króknum hófst vertíðin í síðustu viku og dag frá degi aukast afköstin. „Við byrjuðum í 3.000 fjár á dag en verðum eftir helgina komin í 3.200 kindur. Við erum að finna taktinn og mannskapurinn að þjálfast,“ segir Sigurður Bjarni Rafnsson sláturhússtjóri KS í samtali við Morgunblaðið.
Útlit er fyrir að fallþungi dilka í ár verði með besta móti, að mati sláturhússtjórans. Í fyrra var vorið kalt og tíðin rysjótt sem hafði sín áhrif í búskap. Meðalþyngd á fé, sumargömlum lömbum, síðasta haust var 16,6 kg sem er með lakasta móti. Í sumar hefur hins vegar verið blíð tíð og gróska í heiðarlöndum og þess sér stað í vænleika fjár, eins og bændur hafa á orði. „Fylling í vöðvum er mikil og lömbin vel þroskuð,“ sagði Þórarinn Óli Rafnsson, bóndi á Staðarbakka í Miðfirði, í Morgunblaðinu sl. miðvikudag og kjarnaði með þeim orðum hver staðan er.
Í sláturhúsin á Sauðárkróki og Hvammstanga er flutt fé sem er sótt alveg vestan úr Dölum og austan úr Berufirði. Þar og á milli eru helstu sauðfjárræktarsvæði landsins og mörg búin þar býsna stór. Að lögð séu inn 800-1.000 lömb frá hverju búi er algengt.
„Þetta verður 8-9 vikna törn. Hér á Króknum gæti síðasti dagur sláturtíðar orðið 29. október,“ segir Sigurður Bjarni. Til starfa í hvoru þeirra sláturhúsa sem nefnd eru hér að framan þarf allt að 130 manns til þessara tímabundnu starfa. Sá mannskapur sem þarf er ekki á lausu og því er fengið í vinnu fólk, sem margt er frá Póllandi.
Algengt skilaverð til bænda fyrir dilkakjöt er 1.015 kr./kg, það er án allra yfirborgana. Álag er greitt þeim sem koma með féð í slátrun snemma á haustinu, en sú tala trappast svo niður þegar kemur lengra fram á haustið.
„Útlitið með sölu afurða er ágætt. Vissulega er samkeppni við kjúkling og svínakjöt sem er innflutt. Lambakjötið stendur hins vegar alltaf fyrir sínu og nú gæti líka verið að rofa til í horfum með útflutning, enda eru Nýsjálendingar að draga úr framleiðslu sinni. Slíkt skapar íslenskum landbúnaði tækifæri. Hvað varðar svo sölu á innmat úr sauðfé þá helst hún alltaf nokkur. Enn eru til fjölskyldur sem gera slátur, sem er alveg herramannsmatur,“ segir Sigurður Bjarni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
