Svo bankaði tónlistin upp á

Palli Banine var að gefa út lag eftir langt hlé …
Palli Banine var að gefa út lag eftir langt hlé frá tónlistinni. Von er á breiðskífu í vetur. mbl.is/Ásdís

Listagyðjan lætur Palla Banine ekki í friði en hann vinnur jöfnum höndum í myndlist og tónlist. Palli, sem varð þekktur á tíunda áratugnum með hljómsveitinni Bubbleflies og fyrir hlutverk sitt í költkvikmyndinni Blossa, er nú stiginn fram á sjónarsviðið á ný með nýrri smáskífu og myndbandi. Hann vinnur undir hljómsveitarnafninu Horde, en von er á breiðskífu innan skamms sem ber nafnið Taking reality by surprise.

Palli hitti blaðamann í miðbænum í vikunni og áttum við þar gott spjall um listina, en Palli nam myndlist á Íslandi og í Brussel og var um hríð meðlimur í Klink&Bank. Palli vinnur í ýmsa miðla, þar á meðal innsetningar, höggmyndir, gjörninga og teikningar og hafa verk hans verið sýnd víða um heim. Núna vinnur hann mest í teikningum, málaralist, netmiðlum og tónlist.

Tónlistargyðjan rukkar

„Venjulega hef ég tekið nokkur ár í myndlist þar til tónlistin fer að kalla og fer svo aftur yfir í myndlist, ég virðist rokka þarna á milli. En fyrir þetta verkefni komst ég að því að mesta vinnan felst í að búa tónlistinni sjónrænan búning á netinu,“ segir Palli, og að ef til vill mætti kalla hann fjöltæknilistamann, eða fjölfræðing.

„Tónlistin átti að vera eitthvað sem tilheyrði fortíðinni. En svo bankaði tónlistin upp á og eitt leiddi af öðru. Ég gerði nokkur „demo“ af lögum með vinum mínum erlendis og flutti svo til Íslands og er síðan búinn að vera með opinn reikning hjá tónlistargyðjunni. Ég komst að því að hún rukkar,“ segir Palli.

„Eftir að tónlistin hefur snert þig einu sinni, þá lætur hún þig aldrei í friði. Eftir að ég flutti heim með þessa hálfkláruðu plötu ákvað ég að klára hana en það varð að miklu stærra verkefni en ég hélt,“ segir Palli.

Út fyrir þægindarammann

Nú þegar tónlistin hefur bankað upp á segist Palli vera kominn langt út fyrir þægindarammann. Lagið hans I’m asking you God er nú komið í streymi og myndbandið við lagið má finna á YouTube og Bandcamp.

„Þægindaramminn er þúsundir kílómetra í burtu. Ég er alltaf á mörkum getu minnar. Það er stressandi staður að vera á en ég fer alltaf þangað aftur. Og við gerð þessara myndbanda er ég stöðugt að ýta mér út á brún,“ segir hann.

„Næstu óþægindi sem fylgja plötuútgáfu verða að koma fram opinberlega en ég hef ekki haldið tónleika í mörg ár,“ segir hann.

„Ég er alltaf að bæta við mig þekkingu og lærði meðal annars á gítar í covid. Ég sem ekki lögin mín í tölvu þó þau endi öll þar. En venjulega koma textinn og melódían samtímis,“ segir hann.

„Hljómsveitin heitir Horde, með þöglu e. Þetta þýðir hjörð á ensku og frönsku og þar sem ég byrjaði erlendis varð þetta nafn til þar. Við erum að setja núna saman „live“-band en ég hef ekki mannað það alveg, en það eru alla vega tuttugu manns sem koma að þessari plötu.“

Rokk og ról 

Hvernig tónlist er þetta?

„Þetta er rokk og ról í víðasta samhengi orðanna. Kannski „heavy“ sveimrokk eða sækadelía og það eru avant-­garde-sprettir og alls konar sprettir. Hún er mjög fjölþætt og varð að sínum eigin hlut. Það er það sem er svo spennandi að vinna í svona hópi því músíkin heldur alltaf áfram að þróast á sínum eigin forsendum. Platan byrjar á einum stað og endar á allt öðrum,“ segir hann.

Hér má sjá plötuumslag smáskífunnar I´m asking you God.
Hér má sjá plötuumslag smáskífunnar I´m asking you God.

„Nú er fyrsta smáskífan komin og breiðskífan kemur vonandi út í lok árs. En áður mun ég gefa út tvær smáskífur og vonandi tvö myndbönd í viðbót. Þegar breiðskífan kemur út verður haldið partí,“ segir hann. 

„Textarnir eru um alheiminn, ástina, dauðann og lífið, þetta klassíska, en ég virðist vera frekar epískur í textum mínum og fjalla gjarnan um sammannlegan sannleika.“

Ítarlegt viðtal er við Palla Banine í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert