Allt á hugmyndastigi og ekkert tímasett

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri segir hag Reykvíkinga að borgarlínan verði …
Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri segir hag Reykvíkinga að borgarlínan verði að veruleika fyrr en áætlanir gera ráð fyrir. Samsett mynd/FOJAB/mbl.is/Árni Sæberg

Það er hagur Reykvíkinga að borgarlínan verði að veruleika fyrr en áætlanir gera ráð fyrir í dag. Þetta segir Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri í samtali við mbl.is. Segir hún Keldnaholt enn á hugmyndastigi og ekki búið að tímasetja neitt nákvæmlega, en töluverð umræða hefur verið um skipulag svæðisins undanfarið, meðal annars þéttleika og bílastæðamál.

Löng bið eftir borgarlínu

Samkvæmt drögum að samgönguskipulagi fyrir nýtt blandað hverfi í Keldnalandi er aðeins gert ráð fyrir 2.230 samnýttum bílastæðum í átta samgönguhúsum á völdum staðsetningum í 12 þúsund manna hverfi eða einum fólksbíl á hverja 5,4 íbúa.

Borgarlínan, sem á að vera komin að fullu í rekstur árið 2031, á að ganga í gegnum hverfið en ekki fyrr en árið 2036. Samt sem áður ætti hverfið að geta verið tilbúið um eða upp úr 2030.

Vonast eftir hraðari uppbyggingingu

Spurð hvort uppbygging hverfisins og borgarlínu þurfi ekki að haldast í hendur segir Heiða Björg enn allt á hugmyndastigi og ekki sé búið að tímasetja neitt nákvæmlega.

„Þetta er eitt af því sem þarf að ræða. Við vinnum þetta með Betri samgöngum sem hafa haldið á verkefninu mjög vel.“

Heiða segist vona að uppbygging borgarlínu verði hraðari en gert sé ráð fyrir í dag og segist finna kraftinn í ríkisstjórninni.

„Ríkisstjórnin vill sjá samgöngubætur ganga hratt fyrir sig og við erum opin fyrir því að skoða allt sem getur gerst hraðar.“

Segir Heiða að meta þurfi ýmislegt þegar deiliskipulag fari í gang. Góðar hugmyndir séu uppi og ýmsu verið velt upp.

„Það á líka eftir að ákveða ýmislegt varðandi skóla og leikskóla og margt fleira en bílastæði,“ segir hún.

Fólk geti valið sér lífsstíl

Um 30-40% fjölskyldna í miðborginni eru bíllausar. Stendur til að í Keldnaholti verði álíka mikið bílleysi eða meira?

„Nei, við höfum ekki horft á það þannig endilega. Á þessum svæðum er gert ráð fyrir fleiri bílastæðum en í miðborginni en svo þarf fólk auðvitað að geta valið.

Mér finnst eðlilegt að í stórri borg eins og Reykjavík sé mismunandi fjöldi bílastæða eftir mismunandi hverfum og fólk geti svolítið valið sér lífsstíl,“ segir Heiða Björg.

Borgarstjórinn segir þá sem velji sér að búa í miðborginni kannski ekki endilega með sama lífsstíl og þeir sem velji sér að búa annars staðar.

„Við ætlum ekki að fara að velja fyrir fólk en við erum að reyna að auka valmöguleikana og gerum enn ráð fyrir að flestir muni ferðast á milli staða með einkabíl.“

Segir Heiða það að setja upp hverfi í borginni sem geri ráð fyrir öðru sé líka skemmtilegt því allir séu ekki eins.

„Við þurfum að tryggja aðgengi allra. Við þurfum að huga að aðgengi fyrir fatlaða og þá sem eiga erfiðara með að ganga eða hjóla. Í fallegri borg á fjölbreytni að vera allsráðandi.

Vilja auka lífsgæði – horfa ekki í kostnað

Ekki er gert ráð fyrir ofgnótt bílastæða í uppbyggingu hverfa í Reykjavík í dag. Hver er kostnaðurinn við eitt bílastæði og hvernig myndast sá kostnaður?

„Ef þú berð saman nýtingu landsvæðis undir 10 fermetra bílastæði og 10 fermetra af fimm hæða fjölbýlishúsi þá er dæmið augljóst en við erum ekki að horfa í kostnaðinn.

Við erum að horfa á að auka lífsgæði og tryggja nægilega mörg bílastæði. Við erum að tryggja að fólk geti valið sér samgöngumáta,“ segir Heiða og undirstrikar að vilji borgarinnar standi til þess að skoða alla uppbyggingu í samráði við byggðina.

Evrópska samgönguvikan hófst á þriðjudag en Reykjavíkurborg stóð fyrir opnu málþingi um fjölbreyttar samgöngur í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert