Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, fór fram á það undir liðnum fundarstjórn forseta á Alþingi í dag að fresta umræðu um bókun 35 í dag, en það er eina málið á dagskrá þingsins í dag fyrir utan óundirbúinn fyrirspurnartíma.
Bókun 35 er viðauki við EES-samninginn sem fjallar um forgang EES-reglna fram yfir önnur landslög á Íslandi, Noregi og Liechtenstein.
Bergþór benti á að ekki væri búið að ganga frá skrifuðum texta af ræðum umræðunnar á síðasta þingi sem gerði þingmönnum, sem vildu glöggva sig á því sem hér væri undir, erfitt um vik að skoða með hvaða hætti menn hefðu eftir atvikum hagað orðum sínum á fyrri stigum.
Hann sagði að það væri óskiljanlegt að hér væri komið mál undir þeim formerkjum að vera endurflutt og þess vegna ætti þetta allt saman að ganga mjög hratt og vel fyrir sig.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, tók fram við umræðuna að allar ræður úr talgreini væru nú aðgengilegar á vef þingsins en tók fram að það ætti þá eftir að lesa textann yfir eins og venjan væri.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins, steig í pontu og vildi hrósa starfsmönnum þingsins. Hún kvaðst hafa hugsað oft til þeirra þegar allar fyrri ræður bárust til starfsmanna til að skrifa upp. Þetta hefði verið rosalegt álag.
„En ég held að við ættum nú öll prófað að setja okkur í spor starfsmanna. Það átti sennilega enginn von á hversu öfgafullt og brjálæðislega mikið þetta var, þetta málþóf. Og ég verð bara að segja að nú er bókun 35 á dagskrá og auðvitað verður að afgreiða þá bókun einn góðan veðurdag. En ég er bara svolítið uggandi, hvort við séum mögulega að stefna inn í einhverja svona álíka geðveiki eins og hérna í vor og inn í sumar, annað málþóf. Mér finnst svona aðeins verið að leggja drög að því en ég vona að það sé bara kannski misskilningur,“ sagði hún.
Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, steig næstur í pontu og benti á að bókun 35 væri mikilvægt mál sem varðaði fullveldi íslensku þjóðarinnar.
Hann sagði að það væri ekkert hlægilegt við það að flokkurinn hefði óskað eftir því að textar væru klárir á vef þingsins fyrir þessa umræðu.
„Og kalla þetta eitthvað öfgafullt eins og háttvirtur þingmaður Kolbrún Baldursdóttir fór með hér áðan, og brjálæðislegt og álíka geðveiki. Þessi orð sem hún viðhafði þegar við erum heiðarlega að tala hér um fullveldi þjóðarinnar og reyna að verja fullveldi þjóðarinnar, sem við trúum á. Kalla það geðveiki, brjálæðislegt, öfgafullt er ekki sæmandi þinginu,“ sagði Karl Gauti. Undir hans orð tóku fleiri þingmenn Miðflokksins.
Kolbrún steig aftur í pontu og sagði að það kynni að vera að hún hefði ansi sterkt til orða og baðst hún velvirðingar á því.
„En það bara situr í mér kvíði fyrir þessari umræðu sem er að koma núna í bókun 35. Það var ekkert umræðan sem var, með leyfi forseta, geðveikisleg, það var þetta málþóf sem var bara orðið verulega lýjandi og erfitt fyrir marga og líka almenning,“ sagði hún.
„En ég skal alveg viðurkenna að ég tók sterkt til orða áðan og ég biðst velvirðingar á því að hafa gert það, það var ekki meining mín að ganga neitt langt í þeim efnum,“ sagði hún.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, benti á að það hefði legið fyrir alla vikuna að bókun 35 yrði á dagskrá í dag.
„Það var líka ákveðið af hálfu ríkisstjórnarflokkanna að koma snemma með það mál inn einmitt vegna þess að vitað var að það taki tíma í vinnslu þingsins. Andstaða Miðflokksins er þekkt í málinu. Það liggur hins vegar fyrir að það er yfirgnæfandi meirihlutastuðningur fyrir málinu en það hins vegar núllar auðvitað ekki út þörf þingsins fyrir að ræða málið og þess vegna kemur það auðvitað tiltölulega snemma inn á þingvetrinum,“ sagði hann.