Aðsend grein úr Morgunblaðinu
Ísland hefur á undanförnum áratugum byggt upp fiskveiðistjórnunarkerfi sem tryggir sjálfbæra nýtingu á nytjastofnum og vernd vistkerfa hafsins. Kerfið byggist á vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og öðrum viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum. Það hefur skilað þeim árangri að íslenskur sjávarútvegur er talinn til fyrirmyndar á alþjóðavísu hvað varðar ábyrga umgengni og sjálfbæra nýtingu á fiskistofnum.
Í vikunni sem leið fór fram tveggja daga umhverfisþing á vegum stjórnvalda, þar sem meginþemu voru hafið, líffræðileg fjölbreytni og loftslagsmál. Í kjölfarið hafa nokkrar fréttir verið fluttar af áformum um verndun 30% efnahagslögsögunnar og meintri skaðsemi botndreginna veiðarfæra í íslenskri lögsögu. Að gefnu tilefni er rétt að fara stuttlega yfir þessi mál.
Skilgreining og verndun svæða í hafi til verndar líffræðilegri fjölbreytni er eitt stærsta verkefni þeirra þjóða sem byggja lífsviðurværi sitt á fiskveiðum. Því er brýnt að vandað sé til verka þegar ráðist er í slíkt verkefni og nauðsynlegt að nýta víðtæka þekkingu á hafinu úr ólíkum áttum, ekki síst þeirra sem teljast hagaðilar. Það er í samræmi við nálgun Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) og alþjóðlegan samning um líffræðilega fjölbreytni (CBD), þar sem lögð er áhersla á að góð þekking á atvinnuþáttum sé forsenda þess að ná megi þeim markmiðum sem stefnt er að.
Jafnframt er mikilvægt að ríki hafi áfram svigrúm til að útfæra reglur á þessu sviði að landsrétti, enda eru aðstæður og réttarreglur ólíkar milli ríkja. Markmið um vernd og nýtingu geta sannanlega farið saman, líkt og sýnt hefur verið fram á með íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Á alþjóðavettvangi hefur einnig verið lögð áhersla á svokallaða virka svæðisvernd (OECM – other effective area-based conservation measures), þar sem líffræðileg fjölbreytni er tryggð með samlegðaráhrifum sjálfbærrar auðlindanýtingar og verndunar. Slík nálgun er betur til þess fallin að tryggja langtímahagsmuni þjóðarinnar en einfaldur prósentureikningur um verndarsvæði.
Verndarsvæði í hafi geta verið mikilvæg til að vernda líffræðilega fjölbreytni, en það er nauðsynlegt að tryggja að þau séu vel ígrunduð og að verndun þeirra skili tilætluðum árangri. Í því ljósi er mjög athyglisvert að skoða stöðuna í öðrum löndum sem telja sig vera komin áleiðis í þessari vegferð. Reynslan frá öðrum ríkjum, eins og Ástralíu, Bandaríkjunum og Kanada, sýnir að verndarsvæði, sem eru ekki studd skýrum reglum og vísindalegum gögnum, vernda í raun ekki neitt. Slík svæði virka þá ekki eins og ætlað var.
Í stað þess að einblína á umfang verndarsvæða á korti og prósentuútreikninga ætti áherslan að vera á að finna lausnir sem sameina verndun og ábyrga nýtingu auðlinda. Með því gæti Ísland tryggt ábyrgar fiskveiðar og vernd viðkvæmra vistkerfa, án þess að skapa óþarfa takmarkanir í fiskveiðum.
Á Íslandi hefur fiskveiðistjórnunarkerfið verið grundvallað á vísindalegum forsendum og ábyrgri nýtingu sem hefur skilað miklum árangri. Þar ríkir jafnvægi milli nýtingar og verndar með markvissum aðgerðum, eins og útgáfu aflamarks, svæðalokunum og reglusetningu um veiðarfæri. Kerfið hefur stuðlað að bæði sjálfbærri nýtingu og góðri umgengni um viðkvæm vistkerfi, án þess að fórna hagsmunum Íslendinga af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar. Til að tryggja að sjávarútvegur verði áfram sú efnahagslega stoð sem honum er ætlað að vera er mikilvægt að verndarsvæði séu ekki ákveðin sem óljós táknræn aðgerð, heldur sem raunveruleg aðgerð til að bæta umgengni um auðlindir hafsins. Fjölmargar þjóðir horfa til Íslands sem fordæmis um hvernig nýting á fiskistofnum og vernd hafsins geta farið saman. Óþarfi er að fórna þeirri stöðu með illa ígrunduðum ákvörðunum sem litlu eða engu skila.
Ísland á ekki að vera leiðandi í lögfestingu á verndarsvæðum í hafi út frá fyrirframgefnum prósentutölum. Betur færi á því að stjórnvöld beittu sér í alþjóðlegri vinnu um hvernig skuli túlka verndarsvæði til hagsbóta fyrir fiskveiðar og fiskveiðiþjóðir. Stjórnvöld ættu jafnframt að leggja áherslu á að styrkja núverandi kerfi, sem tryggt hefur sjálfbærni og skynsama auðlindastjórnun.
Þegar rætt er um meint neikvæð hliðaráhrif veiða, þar á meðal með notkun botnsnertanlegra veiðarfæra, er rétt að hafa í huga að í gildandi lögum og regluverki eru þegar til staðar ýmsar tæknilegar verndarráðstafanir. Þær fela meðal annars í sér ákvæði um togveiðihólf, friðun svæða, takmarkanir á veiðarfærum, möskvastærðir og tímabundið veiðibann. Þessar ráðstafanir hafa verið þróaðar í áratugi í samráði við sjómenn, útgerðir og vísindasamfélagið og hafa reynst árangursríkar við að vernda bæði viðkvæm hafsvæði og hafsbotninn, og stuðla þannig að líffræðilegri fjölbreytni.
Stjórnvöld hafa gripið til fjölbreyttra og árangursríkra verndarráðstafana sem staðfesta að ábyrg nýting og vernd geta farið saman. Má þar nefna:
Veiðar með botnvörpu eru aðeins stundaðar á takmörkuðu svæði, sem þekur um 16% af efnahagslögsögunni.
Sókn með botnvörpu hefur dregist verulega saman frá árinu 1992 samhliða tækniþróun og bættu regluverki. Veiðarfæri hafa tekið miklum breytingum á umliðnum árum með minni botnsnertingu og betri hönnun. Veiðisvæðum er stýrt með svæðisbundnum lokunum og tæknilegum ráðstöfunum sem jafnast á við „umferðastýringu“ innan lögsögunnar.
Þessi nálgun grundvallast á vísindalegum gögnum, staðbundnum aðstæðum og jafnvægi milli verndar og nýtingar. Mikilvægt er að stjórnvöld byggi á þessum árangri. Núgildandi réttarreglur hafa reynst vel við stjórn fiskveiða, hvort sem litið er til nýtingar á nytjastofnum eða verndunar viðkvæmra hafsvæða. Ísland er fjarri því að vera eftirbátur annarra þjóða þegar kemur að veiðum sem kunna að hafa áhrif á annað lífríki hafs. Þvert á móti og vangaveltur um slíkt eiga ekki við rök að styðjast.
Fram hjá því verður ekki litið, að ef farið yrði í það að skilgreina 30% efnahagslögsögunnar sem lokuð verndarsvæði myndi það þýða að 70% yrðu fyrir utan svæðin og veiðiálag myndi einfaldlega færast þangað. Afleiðingar þess yrðu að líffræðilegur fjölbreytileiki á opnu svæðunum myndi minnka, þéttleiki fiskistofna minnka og veiðar yrðu erfiðari (óhagkvæmari). Hefðbundin fiskveiðistjórnun með hámarksafla, takmörkun á notkun ákveðinna veiðarfæra o.s.frv., er einfaldlega mun öflugra stjórntæki fyrir fiskveiðar en verndarsvæði í hafi og tryggir betur fæðuöryggi og hagkvæmni veiða. Þá er slík stjórnun ekki síðri til að vernda líffræðilegan fjölbreytileika en verndarsvæði í hafi.
Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
