Hægt að dæla olíu eftir sex til tíu ár

Litlar tæknilegar hindranir eru fyrir því að hefja olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Tíminn fram að því að framleiðsla gæti hafist er á bilinu sex til tíu ár að sögn sérfræðinga.

Þetta kemur fram í viðtali við þá Hauk Óskarsson, framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Refskeggs og Heiðars Guðjónssonar fjárfestis. Þeir voru í hópi þeirra sem komu að stofnun olíuleitarfyrirtækisins Eykon fyrr á öldinni.

Einn til tveir kílómetrar niður

Benda þeir á að olíuborun á þessu svæði færi fram með neðansjávarvinnslupalli og að fara þyrfti einn til tvo kílómetra ofan í bergið. Segir Heiðar það mjög aðgengilegt í raun. Til dæmis sé  verið að bora allt að fjóra kílómetra niður úti fyrir ströndum Brasilíu. Þá séu slík borverkefni á mun meira dýpi en því sem finnst á Drekasvæðinu.

Í viðtalinu er rætt um það hvort olíuhreinsistöðvar yrðu reistar hér á landi en kæmi til þess yrði olíunni skipað upp hér á landi. Hins vegar kæmi vel til greina að fleyta hrávörunni áfram til stærstu olíuhreinsistöðva Evrópu í Bretlandi eða Hollandi.

Hins vegar myndi mikil þjónusta eiga sér stað hér á landi. Meðal annars yrði að hafa hér öfluga dráttar- og þjónustubáta og eins þyrfti að lágmarki að hafa átta mjög öflugar þyrlur á svæðinu. Þannig hefur verið gert ráð fyrir stóru þyrluhlaði á Egilsstöðum.

Mörg hálaunastörf

Mörg hálaunastörf myndu fylgja þessari starfsemi í landi. Eins gætu skatttekjur ríkissjóðs orðið gríðarlegar ef af vinnslunni verður. Á tuttugu ára tímabili gæti auðlindin skilað ríkissjóði beinum tekjum upp á 250 milljarða dollara. Það jafngildir ríflega 30 þúsund milljörðum króna.

Bendir Heiðar á að þarna sé ekki um endurnýjanlegan orkugjafa að ræða. Hugsa þurfi meðferð þessa skattfjár mjög vandlega þannig að það verði ekki aðeins ein kynslóð sem njóta muni góðs af þessum auði.

Haukur ítrekar í þessu sambandi að engin fjárhagsleg áhætta fylgi þessum umsvifum fyrir ríkissjóð. Einkaaðilar muni bera allan kostnað af leit og vinnslu.

Viðtalið við Heiðar og Hauk má sjá í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert