„Ég hef auðvitað fullan skilning á því að erfitt sé fyrir Þorgerði að svara pistlaskrifum mínum á vefsíðunni minni með málefnalegum hætti og að hún reyni fyrir vikið með öllum ráðum að koma sér hjá því.
En að utanríkisráðherra landsins, formaður stjórnmálaflokks og einn af oddvitum ríkisstjórnarinnar skuli grípa til þess örþrifaráðs í þeim tilgangi að væna mig um að fá greitt fyrir skrifin án þess að færa nokkur rök fyrir því, án þess að hafa neitt fyrir sér í því og án þess að það sé satt er auðvitað með ólíkindum. Hversu lágt er hægt að leggjast?“
Þetta segir Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, inntur eftir viðbrögðum við ummælum sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og formaður Viðreisnar, lét falla við samtali við mbl.is síðdegis að hún ætlaði ekki að elta ólar við skrif Hjartar á vefsíðunni Stjórnmálin.is og sagði hann fá greitt fyrir þau.
Skrifin fjölluðu um heiðursgestinn á landsþingi flokksins um helgina, Guy Verhofstadt, sem hefur verið mikill talsmaður þess um margra ára skeið að Evrópusambandið yrði að sambandsríki. Nú síðast í aðsendri grein á fréttavefnum Politico fyrr í þessum mánuði.
„Frá því er þannig skemmst að segja að ég hef aldrei fengið svo mikið sem krónu greidda fyrir pistlaskrifin. Mín laun eru einfaldlega sú góða tilfinning að vera að vinna að hugsjónum mínum og hagsmunum lands og þjóðar,“ segir Hjörtur og bætir við:
„Ég vona að Þorgerður viti hvað hugsjónir eru en hún virðist telja að enginn taki sér penna í hönd og skrifi um það sem hann brennur fyrir án þess að fá greitt fyrir það. Sjálf er hún auðvitað á launum við slíkt.
Hitt er svo annað mál að það er auðvitað hárrétt sem ágætur vinur minn sagði við mig eftir að hafa lesið ummæli hennar: „Bíddu, jafnvel þó þú fengir greitt fyrir skrifin, þýddi það að þau væru röng?““