Fasteignafélagið Þórkatla hefur ákveðið að framlengja heimild hollvina til þess að gista í eignum félagsins í Grindavík. Gistiheimildin gildir nú til 31. mars 2026.
Þetta kemur fram á vef Þórkötlu en þar segir að í sumar hafi hollvinir Þórkötlu haft tækifæri til að gista í fyrrverandi eignum sínum í Grindavík. Í byrjun september höfðu 74 hollvinir undirritað viðauka við hollvinasamning sem heimilar gistingu í eignum Þórkötlu. Stærstur hluti þeirra undirritaði samning í maí og júní sl.
„Um var að ræða tímabundið verkefni til reynslu í sumar og var markmiðið að ýta undir að Grindvíkingar haldi tengslum við bæinn. Heimildin var hugsuð til sumardvalar en ekki til fastrar búsetu. Reynslan af verkefninu hefur heilt yfir verið góð og vill starfsfólk Þórkötlu koma á framfæri þakklæti til þeirra hollvina sem varið hafa tíma í Grindavík í sumar, hlúað að fyrrum eignum sínum og görðum,“ segir enn fremur á vef Þórkötlu.
Viðauki við hollvinasamning um gistingu rennur út þann 30. september nk. en í ljósi þess hve vel verkefnið hefur gengið verður því haldið áfram. Áfram geta þeir hollvinir sem ekki hafa sótt um viðauka um gistingu sótt um slíka heimild á heimasíðu félagsins.
