Vestnorræna ráðið fagnar 40 ára afmæli í dag og verður af því tilefni málþing á vegum ráðsins og Norræna félagsins í Norræna húsinu í dag. Jón Gnarr, þingmaður Viðreisnar og formaður ráðsins, segir þemað í ár bera öryggis- og varnarmál, þá sérstaklega eftirlit með sæstrengjum.
Málþingið er í samvinnu við Norrænu ráðherranefndina og Alþjóðamálastofnun HÍ og hefst klukkan 16:30.
„Það er þarna verið að fara svolítið yfir sögu Vestnorræna ráðsins og hverju það hefur skilað í gegnum tíðina og af hverju það er mikilvægt,“ segir Jón í samtali við mbl.is og nefnir að um sé að ræða almenna umræðu „um fortíð, nútíð og framtíð vestnorræns samstarfs.“
Þá verði að auki fjallað um stöðu mála í Grænlandi og Færeyjum.
Jón segir vestnorræna samstarfið aðallega hafa verið á menningar- og tengslalegum nótum í gegnum tíðina. Þema síðasta árs hafi verið vestnorræn tungumál í stafrænum heimi.
„Núna er áherslan á öryggis- og varnarmál og ekki síst eftirlit með sæstrengjunum okkar sem við erum algjörlega háð.“
„Mig grunar að það verði svolítið mikið spurt um Grænland því mér finnst að fólki leiki forvitni á að vita meira um hvað sé í gangi þar,“ segir Jón og vísar þar til hins yfirlýsta áhuga Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á því að kaupa Grænland.
„En þetta er fyrst og fremst bara afslappað og ánægjulegt.“
Dagskrá málþingsins má nálgast hér.