Framlag ferðaþjónustu til hagvaxtar dróst saman

Ferðamenn við Brúarfoss.
Ferðamenn við Brúarfoss. mbl.is/Eyþór

Ferðaþjónusta hélt áfram að gegna lykilhlutverki í hagkerfinu á síðasta ári og nam hún 8,7% af vergri landsframleiðslu, samanborið við 8,2% árið 2023.

Þetta kemur fram í bráðabirgðaniðurstöðum ferðaþjónustureikninga Hagstofu Íslands.

Gistiþjónusta var enn og aftur í fararbroddi í greininni og nam um 2,6% af vergri landsframleiðslu. Þrátt fyrir aukningu í hlut ferðaþjónustunnar í vergri landsframleiðslu hefur framlag greinarinnar til hagvaxtar dregist saman frá fyrra ári og stendur nú í -0,4%.

Ferðamenn í Reynisfjöru.
Ferðamenn í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ein af hverjum tíu tengd ferðaþjónustu

Áætlað er að um 31,8 milljónir vinnustunda árið 2024 megi rekja með beinum hætti til ferðaþjónustu, sem jafngildir um 9,9% heildarvinnustunda hér á landi það árið. Til samanburðar var þetta hlutfall um 10,1% árið 2023. Gistiþjónusta vó sem áður þyngst í fjölda vinnustunda og var hlutur hennar í heildarvinnustundum um 3,2%.

Heildarneysla ferðamanna jókst um 6,4%

Árið 2024 nam heildarneysla ferðamanna á Íslandi, bæði erlendra og innlendra, tæpum 870 milljörðum króna og jókst um 6,4% frá fyrra ári. Útgjöld ferðamanna, það er neysla að frádreginni reiknaðri húsaleigu og útgjöldum vinnuveitenda, námu rúmlega 840 milljörðum króna, sem er aukning um 7,9% frá fyrra ári. Þegar útgjöld ferðamanna eru hins vegar mæld á föstu verðlagi jukust þau aðeins um 2,8% og höfðu verðlagshækkanir því veruleg áhrif á vöxt útgjalda á verðlagi hvers árs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert