Nokkrir dagar til eða frá skipti ekki höfuðmáli

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eyþór

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir ekki skipta höfuðmáli hvort að beðið verði í nokkra daga með að kalla Þjóðaröryggisráð saman.

Ýmsir alvarlegir atburðir sem orðið hafa innan Evrópu síðustu vikur gefi hins vegar tilefni til þess að það verði gert.

Fyrr í dag kallaði Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins eftir því að þjóðaröryggisráð yrði kallað saman þegar í stað vegna ólöglegs drónaflugs yfir flugvöllum í Danmörku og Noregi í gærkvöldi en forsætisráðherra Danmerkur hefur lýst atvikinu sem „alvarlegustu árás á mikilvæga innviði í Danmörku til þessa“.

„Ég tel ekki óeðlilegt að þjóðaröryggisráðið komi saman, ekki bara út af þessu heldur líka út af öðrum málum,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við mbl.is en í því samhengi nefnir hún orrustuþotur sem flogið var inn í lofthelgi Eistlands á dögunum og inn­rás um 20 rúss­neskra dróna í pólska loft­helgi fyrr í mánuðinum.

Menn þurfa ekki að fara í panikk 

Þorgerður er sem stendur stödd ásamt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York en sú síðarnefnda fer með formennsku í þjóðaröryggisráði.

Spurð hvort að tilefni sé til að boða ráðið saman áður en að þær snúi aftur heim líkt og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur kallað eftir segir Þorgerður:

„Ég held að menn þurfi nú ekki að fara í eitthvað panikk, en þetta er alvarlegt og eins og ég segi eru það ekki eingöngu þessir atburðir sem kalla á það að við komum saman. Hvort við bíðum í nokkra daga til eða frá, það er ekki stóra málið.“

Þá bendir Þorgerður á að þessi mál séu sömuleiðis rædd á öðrum vettvangi, til að mynda í ráðherranefnd um varnir og öryggismál sem að bæði hún, Kristrún og Inga Sæland sitja í.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á alsherjarþingi …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra á alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Fara þarf í fræðslu en ekki hræðslu 

Þá segir Þorgerður að ýmislegt hafi áunnist í varnarmálum á Íslandi síðustu ár en að halda þurfi vinnunni áfram.

„Við þurfum að halda áfram og þessi atvik núna bæði í Kaupmannahöfn, Noregi og ekki síður í Póllandi og Eistlandi sýna að Norðurlandaþjóðirnar og balknesku þjóðirnar þurfa að standa saman sem aldrei fyrr og við Íslendingar þurfum að fara í fræðslu, ekki hræðslu, og vera viðbúin. Annað væri einfeldni,“ segir Þorgerður.

„Það er ekkert að ástæðulausu að ég og ríkisstjórnin höfum verið að setja þetta á dagskrá, þetta er bara veruleiki sem að við stöndum frammi fyrir og hann er alltaf að færast nær og nær.“

Hefur átt óformleg samtöl

Að lokum segir Þorgerður aðspurð að hún hafi átt óformleg samtöl um þessi mál við kollega sína í nágrannalöndunum á meðan allsherjarþingið í New York hefur staðið yfir og að fólk sé áhyggjufullt.

„Við þurfum að standa saman í þessu og senda skýr skilaboð. Pólverjar hafa það til að mynda alveg skýrt að ef það koma flugvélar inn í þeirra lofthelgi þá þarf bara að skóta þær niður. Það er ekkert óeðlilegt að slík viðbrögð komi nú fram í dagsljósið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert