Sakar ráðherra um óheiðarleika

Heiðar Guðjónsson, fjárfestir, sakar Jóhann Pál Jóhannsson, umhverfis- og loftslagsráðherra um óheiðarleg vinnubrögð þegar hann fjallar um mögulega olíuleit á Drekasvæðinu.

Þetta gerir Heiðar í nýjasta þætti Spursmála þegar hann bregst við spurningu varðandi ummæli Jóhanns Páls þar sem hann hefur bæði velt vöngum yfir því hvort réttlætanlegt sé að íslenska ríkið komið að stofnun olíufélags en einnig vísað til meints gjaldþrots íslensks olíufélags þegar olíuleit á Drekasvæðinu var síðast á teikniborðinu.

Óábyrgt tal

„[...] Mér finnst það mjög óheiðarlegt og ég skil ekki hvernig ráðherra leyfir sér að tala á svona óábyrgan hátt vegna þess að vissulega var íslenskt olíufyrirtæki sem fór á hausinn en það var ekki Eykon sem fór á hausinn. Og það félag var fyrst og fremst í leit í Kanada og Skotlandi. Þannig að ég skil ekki hvað hann er að blanda þessu saman. Það er enginn sem tapaði á starfsemi Eykon hér og þegar við vorum, við borguðum mörg hundruð milljónir í leyfisgjöld til Orkustofnunar og það var alveg nóg og plús það, þetta var langt umfram þann kostnað sem þau tóku á sig við þetta. Þess utan þá eignast þau öll gögn, allar rannsóknir og allt sem fylgir. Þannig að bara eins og jarðsaga svæðisins er núna miklu ljósari,“ útskýrir Heiðar.

Og hann bætir við:

„Þegar Eyjólfur Konráð Jónsson á sínum tíma var að tala um bæði Drekasvæðið en líka Hatton-Rockall. Hann var mjög framsýnn hérna nítján hundruð sjötíu og eitthvað og sagði, þarna eru líka þungmálmar í sjó. Nú eru Norðmenn farnir að hefja námuvinnslu í sjó. Og þess vegna var hann að berjast fyrir þessu. Orkustofnun fær mjög mikilvægar upplýsingar um það hvort það séu málmar þarna líka. Þannig að Orkustofnun hefur allt að vinna í þessu.“

Þá finnst honum forgangsröðun ráðherrans skökk.

„Og þegar umhverfis- og orkumálaráðherra er að tala um þetta, að þetta sé kostnaður. En honum finnst víst ekkert tiltökumál að fara hátt í hundrað manns á einhverja loftslagsráðstefnu um langan veg og vera þar vikum saman jafnvel. Ég skil ekki hvaða svona dómgreind er á baki því.“

Viðtalið við Heiðar má sjá í heild sinni hér að neðan og ræðir hann málið ásamt Hauki Óskarssyni, framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Refskeggs.

Jóhann Páll Jóhannsson og Heiðar Guðjónsson eru ósammála í olíuleitarmálum.
Jóhann Páll Jóhannsson og Heiðar Guðjónsson eru ósammála í olíuleitarmálum. mbl.is/samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert