Þorgerður: „Við þurfum að vera viðbúin“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir drónaflug yfir Kaupmannahafnarflugvelli í gærkvöldi ýta undir þá spennu sem nú ríkir í Norður-Evrópu. Ísland þurfi að vera viðbúið og efla enn frekar öryggi og varnir sem og eftirlit með viðkvæmum innviðum.

„Þetta er náttúrulega alvarlegt. Það er verið að lama innviði í einhvern ákveðinn tíma. Þetta ýtir undir spennuna sem er í Norður-Evrópu en enn sem komið er þá er verið að rannsaka hverjir þetta eru,“ segir utanríkisráðherrann í samtali við mbl.is.

„Þetta er ein af þessum fjölþáttaógnum sem við höfum verið að nefna að við þurfum að vera undirbúin fyrir. Það er alveg ljóst, að mínu mati, að þessi þverpólitíska samvinna um varnir og öryggi hjá okkur heima á Íslandi er að koma á hárréttum tíma.“

Þurfi að efla löggæslu, tæknibúnað og varnir

Þorgerður segir að Ísland, rétt eins og önnur ríki, þurfi að efla eftirlit með viðkvæmum innviðum eins og t.a.m. flugvöllum og sæstrengjum. Sömuleiðis þurfi að efla löggæslu, tæknibúnað, varnir og þá ekki síst eiga í samstarfi við nágrannaþjóðir.

„Það er okkur óendanlega dýrmætt núna að hafa verið að rækta síðustu misserin bæði norrænt samstarf, Eystrasaltssamstarfið og Evrópusamstarfið innan NATO á þessum tímum, fyrir okkur sem þjóð.

Við þurfum bara að gera það áfram og ég vonast til þess að það verði áfram þverpólitísk samstaða til þess að við séum enn frekar viðbúin þessu öllu saman af því þetta eru raunverulegar ógnir og það er hægt að lama heilu samfélögin með því að beita fjölþáttaógnum.“

Mikilvægt að það sé samstaða um að mæta ógnum

Eins og þú segir þá er ekki búið að staðfesta hvaðan þessi ógn nákvæmlega kemur. Við sáum hins vegar sambærilegt dæmi í Póllandi um daginn og núna í Kaupmannahöfn. Þá er svona eins og þetta sé eitthvað að nálgast Ísland. Er þetta eitthvað sem við þurfum að hafa áhyggjur af?

„Við þurfum að vera viðbúin og gera það sem við höfum verið að gera og frekar að bæta í að efla okkar innviði. Það er mjög mikilvægt að tryggja að öryggissvæðið í Keflavík sé í stakk búið að taka á móti hinum ýmsu ógnum. Í þessu tilfelli þá þurfum við að efla bæði lögregluna, Landhelgisgæsluna og þessa innviði okkar og m.a. líka Cert-is, netöryggissveitina okkar.

Við höfum verið að stíga réttu skrefin til þess að taka á móti þessu en það er líka mikilvægt að það sé samstaða um að mæta þessum ógnum, segir Þorgerður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert