„Undir það búin að það geti farið að gjósa hvenær sem er“

Frá síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni.
Frá síðasta eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Land rís enn stöðugt við Svartsengi. Nú er áætlað að í lok vikunnar nái kvikusöfnunin frá síðasta eldgosi um 11 milljónum rúmmetrum.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands, við mbl.is spurður út í stöðuna á Sundhnúkagígaröðinni.

Fram hefur komið hjá sérfræðingum Veðurstofunnar að líkur á nýjum atburði aukist þegar 11 milljónir rúmmetra hafa safnast saman. Magnið sem hljóp úr kvikusöfnunarsvæðinu í síðasts gosi var áætlað um 11-13 milljónir rúmmetra. 

„Hvort það gerist eitthvað þegar kvikusöfnunin nær þessum mörkum er erfitt að ráða í en við erum undir það búin að það geti farið að gjósa hvenær sem er. Við teljum að líkurnar aukist þegar þessum mörkum er náð en mögulega þarf meira til,“ segir Benedikt.

Níunda eldgosinu á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023 lauk 5. ágúst, eftir að hafa staðið yfir í 19 daga.

Hættumat endurmetið á fimmtudagin

Hann segir að ekki hafi verið vart við vaxandi skjálftavirkni á svæðinu og að hún hafi verið frekar lítil við Sundhnúkagíga.

„Ég veit ekki hvort það sé vísbending um að við þurfum að bíða lengur en það er ómögulegt að fullyrða nokkuð um það,“ segir hann.

Hættumatið verður endurmetið á fimmtudaginn og segir Benedikt að mögulega verði hættan metin meiri þar sem kvikusöfnin sé að nálgast 11 milljónir rúmmetra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert