Miðvikudaginn 17. september var stigið mikilvægt skref í uppbyggingu Vaðölduvers þegar Ístak steypti fyrstu undirstöðuna fyrir vindmyllurnar 28 sem reistar verða á svæðinu.
Ákveðið var að byrja á að steypa undirstöðu fyrir vindmyllu númer 13. Þrátt fyrir númerið gekk steypan afar vel og tók um 14 klukkustundir að ljúka verkinu, að því er fram kemur á vef Landsvirkjunar.
Í undirstöðuna fóru um 70 tonn af stáli og rúmlega 400 rúmmetrar af steypu.
Þetta þýðir að í allar undirstöðurnar munu fara 1.960 tonn af stáli. Ekki veitir af sterkum undirstöðum því að hámarkshæð hverrar vindmyllu með spaða er 150 metrar.
Öll steypa í undirstöðurnar er framleidd á staðnum og eftirlit með framkvæmdunum annast COWI.
Elín Hallgrímsdóttir, staðarverkfræðingur Vaðölduvers hjá Landsvirkjun, segir þetta vera stóran áfanga. Fyrsta undirstaðan marki upphafið að því að sjá vindmyllurnar rísa og framleiða græna orku til framtíðar. Hrósar hún öllu teyminu á verkstað fyrir faglegt og vandað starf.
Stefnt er að því að fyrstu 14 vindmyllurnar verði komnar í rekstur fyrir haustið 2026 og að Vaðölduver verði komið í fullan rekstur fyrir lok árs 2027.
Landsvirkjun samdi við þýska framleiðandann Enercon um kaup, uppsetningu og rekstur á vindmyllunum. Heildarverð var rúmir 20 milljarðar króna.
Vaðölduver rís sunnan við Sultartangastíflu á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, við fellið Vaðöldu. Svæðið tilheyrir Rangárþingi ytra.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
