Engin köld svæði á Íslandi

Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir jarðhitanýtingu mikilvægt …
Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra segir jarðhitanýtingu mikilvægt lífskjaramál. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jarðhitanýting er gríðarlegt lífskjaramál fyrir almenning,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eftir kynningu á uppfærðu jarðvarmamati ÍSOR. Nýja matið staðfestir að engin köld svæði séu til á Íslandi og að varmaforði þjóðarinnar er enn umfangsmeiri en áður var talið og er nú talinn fimmtungi meiri en í síðasta mati.

Ráðherra segir að jarðhiti sé lykill að því að jafna lífskjör um land allt og draga úr húshitunarkostnaði þar sem hann er hvað mestur. „Jarðhiti jafnar leikinn. Hann er tæki til að létta undir með heimilum, sveitarfélögum og grunnþjónustu um allt land,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Jarðhiti sem drifkraftur verðmætasköpunar

Jóhann Páll leggur jafnframt áherslu á að jarðhiti sé ekki aðeins orkulind heldur einnig drifkraftur nýrrar verðmætasköpunar. „Við ætlum að styðja markvisst við jarðhitanýtingu sem uppsprettu atvinnuþróunar og tækniframfara,“ segir hann.

Næsta úthlutun úr Loftslags- og orkusjóði, sem kynnt verður á haustmánuðum, mun því sérstaklega beina sjónum að verkefnum sem efla framleiðni og nýsköpun á þessu sviði.

Ísland hefur þegar náð miklum árangri, að sögn ráðherra, bæði vegna sérstöðu landsins og framsýni fyrri kynslóða. „Við megum ekki vera værukær heldur verðum að hugsa stórt,“ segir hann.

Lagabreytingar fram undan

Til að auðvelda sveitarfélögum og orkufyrirtækjum að nýta jarðhita boðar ráðherra lagabreytingar í október sem einfalda regluverk um jarðboranir.

„Við ætlum að fella niður kröfuna um að fá starfsleyfi fyrir hverja einustu borframkvæmd. Það mun stytta leyfisferlið verulega og liðka fyrir jarðvarmaleit um land allt,“ segir hann.

Ráðherra segir að það hafi skort á skýra langtímasýn í nýtingu jarðhita og að nú sé tímabært að bregðast við.

„Við ætlum að móta jarðhitaáætlun fyrir Ísland. Vinnuhópur verður skipaður á næstu vikum sem tekur það verkefni að sér,“ segir hann og bendir á að Ísland búi við einstaka stöðu. Um tveir þriðju hlutar af frumorkunotkun þjóðarinnar komi þegar frá jarðhita og 90% heimila séu hituð með honum.

Þá muni Ísland einnig beita sér á alþjóðavettvangi, meðal annars í Brussel og á Arctic Circle, til að tryggja að jarðhitanýting njóti viðurkenningar og stuðnings í orkuregluverki Evrópusambandsins.

Ávinningur í náinni framtíð

Aðspurður hvenær almenningur muni sjá raunverulegan ávinning af verkefnunum bendir ráðherra á að áhrifin verði skjótari en margir geri ráð fyrir.

„Á allra næstu árum munu styrktu verkefnin skila orkusparnaði á bilinu 80 til 120 gígavattstundir. Þetta kemur hratt fram og innan yfirstandandi kjörtímabils,“ segir hann.

Svæðin mis krefjandi

Uppfært jarðvarmamat ÍSOR sýnir að varmaflæði á Íslandi er um 37 þúsund megavött, sem er nær fimmfalt hærra en á sambærilegum svæðum í heiminum. Mat á varmaforða hefur hækkað um 18% frá síðasta heildarmati árið 1985.

Í skýrslunni kemur fram að 25% af varmaflæði landsins myndi nægja til að standa undir allri frumorkunotkun þjóðarinnar til frambúðar. Aðeins 1% af jarðvarmaforðanum niður á fimm kílómetra dýpi myndi fullnægja orkuþörf þjóðarinnar næstu 15 þúsund árin.

„Það sem nýja matið staðfestir er að köld svæði eru ekki til. Svæðin eru aðeins mis krefjandi,“ segir ráðherra og leggur áherslu á að stjórnvöld verði að sýna frumkvæði og styðja áfram við orkuskipti og nýtingu jarðhita með markvissri stefnumótun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka