Frumvarp sem mælir fyrir um að fimm virkjunarkostir verði teknir út úr rammaáætlun og því óbundnir af henni bíður framlagningar á Alþingi.
Í frumvarpinu er kveðið á um að Umhverfis- og orkustofnun skuli veita virkjunarleyfi fyrir Hamarsvirkjun, Skatastaðavirkjun, Hvalárvirkjun, Hvanneyrardalsvirkjun og Skúfnavatnavirkjun og að heimilt verði að afl hverrar um sig verði allt að 95 megavött.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Jón Gunnarsson alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, en auk hans eru sjö þingmenn flokksins meðflutningsmenn að frumvarpinu.
Í frumvarpinu er ákvæði þess efnis að sjö lagabálkar gildi ekki um undirbúning, töku og framkvæmd ákvörðunar um fyrrgreindar virkjanir. Þetta eru lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana, lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, lög um mannvirki, skipulagslög, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um lax- og silungsveiði og lög um stjórn vatnamála.
Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að flutningsmenn þess telji að flýta þurfi framkvæmd vatnsaflsvirkjana hér á landi á grundvelli þjóðaröryggis til að tryggja raforkuöryggi landsins vegna aukinnar raforkuþarfar. Eins og fram hafi komið geti eldgos í Bárðarbungu í Vatnajökli haft alvarlegar afleiðingar í för með sér á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, þar sem mesta raforkuframleiðsla landsins fer fram. Það liggi í augum uppi hversu alvarleg staða geti skapast fyrir samfélagið í heild, komi slíkar aðstæður upp.
„Það er mjög mikilvægt að bregðast við með því að virkja utan þess svæðis og tryggja að rafmagn verði áfram tiltækt og vernda þannig landið gegn óvæntum orkuskorti vegna náttúruvár,“ segir Jón við Morgunblaðið.
„Með aukinni framleiðslu endurnýjanlegrar orku á fleiri stöðum en suður- og suðvesturhorni landsins er stuðlað að áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs og þróunar og þar með verður frekari trygging fyrir byggð um landið allt. Einnig verður áframhaldandi stöðugleiki og möguleiki á að svara breyttum þörfum íbúa fyrir orku, t.d. vegna tækni, nýsköpunar, stóriðju, rafvæðingar samgangna og fleira. Með frekari vatnsaflsvirkjunum á Íslandi verður nauðsynlegt raforkuöryggi tryggt í ljósi mögulegra náttúruhamfara í náinni framtíð. Það stuðlar að sjálfbærni, samfélagslegum en einnig efnahagslegum stöðugleika en ekki síður raforkuöryggi landsins,“ segir Jón.
Hann segist fagna sinnaskiptum Samfylkingarinnar í þessum málaflokki, sem hafi fram að þessu lagst á sveif með þeim öflum sem ekki vildu stíga fast til jarðar í þessum málaflokki. Hann vonist því eftir stuðningi flokksins við málið.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
