„Nýjung sem við erum að skoða“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Karítas

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir ekki tímabært að tjá sig um áhrif nýrra hlutdeildarlána húsnæðissjóðsins REIR20 á fasteignamarkaðinn.

Sjóðurinn leggur fram 20% af kaupverði fasteignar og verður meðeigandi með kaupendum til allt að tíu ára.

Á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands í morgun var spurt hvort hlutdeildarlánin gætu aukið möguleika fólks til að komast inn á fasteignamarkaðinn, hjálpað til við að losa um óseldar nýjar eignir eða hvort þau gætu haft víðtækari áhrif og hleypt fasteignamarkaðnum hérlendis af stað.

„Þetta er nýjung sem við erum að skoða,” svaraði Ásgeir. „Ég held að það sé ekki tímabært að gefa út miklar yfirlýsingar um áhrifin.”

Nefndi hann í framhaldinu að Seðlabankinn hefði álitið að reglur Seðlabankans um lánþegaskilyrði væru „mikilvæg handrið” fyrir fasteignamarkaðinn.

Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands.
Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika hjá Seðlabanka Íslands. Ljósmynd/Aðsend/mbl.is/Golli

Þurfa meiri tíma

Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, sagði bankann hafa trú á því að greiðslubyrðarhlutfall og veðsetningarhlutfall bankans virki til að draga úr líkum á óstöðugleika á fjármálamarkaði.

„Varðandi þetta einstaka dæmi þá þurfum við að fá aðeins meiri tíma til að skoða það betur,” sagði Tómas.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert