„Fjármálakerfið hér á landi stendur traustum fótum. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun greitt.”
Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands.
Þar segir einnig að umtalsverð óvissa sé þó í alþjóðamálum og langtímavextir hafi víða hækkað vegna vaxandi efasemda um sjálfbærni opinberra fjármála.
„Alþjóðlegir eignamarkaðir eru hátt verðlagðir og snörp verðleiðrétting gæti haft áhrif á aðgengi og kjör íslenskra fyrirtækja á erlendri fjármögnun. Óvissa á alþjóðavettvangi undirstrikar mikilvægi ríflegs gjaldeyrisforða og traustrar erlendrar eignastöðu þjóðarbúsins.”
Í yfirlýsingunni segir jafnframt að heimili og fyrirtæki hafi heilt yfir viðhaldið viðnámsþrótti sínum þrátt fyrir viðvarandi verðbólgu og háa raunvexti. Hóflegur skuldavöxtur og traust eiginfjárstaða, sem m.a. megi rekja til þétts taumhalds þjóðhagsvarúðarstefnunnar, hafi átt sinn þátt í að vanskil eru enn lítil.
„Dregið hefur úr hækkun húsnæðisverðs og spenna á húsnæðismarkaði minnkað. Framboð er töluvert og lengur tekur að selja húsnæði en áður, sér í lagi nýbyggingar. Velta á húsnæðismarkaði er þó enn talsverð og kaupendum fyrstu fasteignar hefur fjölgað,” segir sömuleiðis í yfirlýsingunni.
„Vaxandi ógn við rekstrar- og netöryggi fjármálainnviða er fylgifiskur mikillar óvissu í alþjóðamálum og tæknivæðingar á fjármálamarkaði. Áfram þarf að efla viðbúnað fyrir mikilvæga innviði og vinna markvisst að því að auka viðnámsþrótt í greiðslumiðlun.”
Þar segir að fjármálastöðugleikanefndin hafi ákveðið að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í 2,5% í samræmi við stefnu nefndarinnar um beitingu aukans.
