„Við fáum gríðarlegan stuðning“

Úthlutun Loftslags- og orkusjóðs tryggir félaginu samtals 179,25 milljónir króna …
Úthlutun Loftslags- og orkusjóðs tryggir félaginu samtals 179,25 milljónir króna í fjögur samofin verkefni tengd jarðvarma á Austurlandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

 „Við fáum gríðarlegan stuðning til að fara af stað í verulegar úrbætur á fjarvarmakerfinu á Seyðisfirði,“ segir Glúmur Björnsson, jarðfræðingur og verkefnisstjóri hjá HEF veitum ehf.

Úthlutun Loftslags- og orkusjóðs tryggir félaginu samtals 179,25 milljónir króna í fjögur samofin verkefni á Austurlandi.

Fyrirhuguð uppbygging nýtur verulegs stuðnings úr sjóðnum en 121 milljónir króna eru ætlaðar til miðlægrar varmadælu í fjarvarmaveitu Seyðisfjarðar og 27,5 milljónir króna til jöfnunartanks.

„Fyrstu skrefin eru að halda jarðhitaleit áfram,“ segir Glúmur. „Við boruðum eina holu í vor og ætlum að halda áfram á efnilegustu svæðunum nærri þéttbýlinu.“

Seyðisfjörður þar sem að fyrirhuguð uppbygging nýtur verulegs stuðnings úr …
Seyðisfjörður þar sem að fyrirhuguð uppbygging nýtur verulegs stuðnings úr sjóðnum. mbl.is/Sigurður Bogi

Ávinningur innan fárra ára

Í úthlutuninni hlýtur HEF veitur 22,75 milljónir króna til jarðhitaleitar á Seyðisfirði og 8 milljónir króna til jarðhitaleitar á Borgarfirði eystra. „Niðurstöðurnar ráða svo næstu skrefum, þ.e. hvort við tengjum beint við varmagjafa eða förum leið varmadælu,“ tekur Glúmur fram.

Glúmur Björnsson, jarðfræðingur og verkefnisstjóri hjá HEF veitum ehf segir …
Glúmur Björnsson, jarðfræðingur og verkefnisstjóri hjá HEF veitum ehf segir að styrkveitingin gefi tækifæri á að fara í verulegar úrbætur. mbl.is/Tinna Björt

Hann bendir á að leitin á Borgarfirði eystra sé endurræsing á eldri hugmynd. „Það var leitað lítillega þar fyrir löngu, en nú fáum við raunverulegt tækifæri til að kanna möguleikana af alvöru.“

Að sögn Glúms er markmiðið ljóst. „Að setja upp miðlæga varmadælu og styrkja kerfið með jöfnunartanki um leið og forsendur liggja fyrir.“

Glúmur telur framkvæmdirnar geta skilað hröðum ábata. „Það ætti ekki að taka mörg ár að setja upp miðlæga varmadælu. Ávinningurinn kemur í raun um leið og kerfið fer í gagnið, þó að fullur ábati náist á lengri tíma.“ Hann bendir jafnframt á að framkvæmdirnar skapi störf á staðnum á meðan þeim vindur fram.

„Þetta eru fjárfestingar sem litlu samfélagi hefði annars reynst erfitt að ráðast í,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert