Nokkrir leikskólar í Reykjavík hafa verið lokaðir í heilt kjörtímabil eða lengur vegna viðhaldsframkvæmda sem gengið hafa brösuglega. Hér er m.a. um að ræða leikskólana Grandaborg, Árborg, Hlíð-Sólhlíð og Hagaborg.
Þetta kom m.a. fram á fundi í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar sem haldinn var í vikunni. Þessi staða mála leiðir í ljós alvarlegan stjórnunarvanda hjá borginni þegar kemur að ákvarðanatöku í viðhaldsverkefnum, að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði.
Nú er ekki unnt að nýta alls 580 leikskólapláss í borginni og rekja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þau Marta Guðjónsdóttir og Helgi Áss Grétarsson, það til langvarandi skorts á viðhaldi sem og stjórnunarvanda. Þessi 580 leikskólapláss samsvari því að átta 72 barna leikskólar væru lokaðir.
Þannig hefur leikskólinn Grandaborg verið meira og minna lokaður frá haustdögum 2021, en nú er stefnt að því að framkvæmdum við skólann ljúki eftir næstu áramót, meira en hálfu ári síðar en ráð var fyrir gert þegar staða mála var kynnt í skóla- og frístundaráði í fyrravor. Meðal skýringa sem gefnar hafa verið á töfunum er að framkvæmdir hafi tafist vegna greiðsluþrots verktaka og að tíma hafi tekið að skipuleggja verkið upp á nýtt. Börin í skólanum tvístruðust og var deilt niður á þrjá skóla í borginni.
Svipaða sögu er að segja af leikskólanum Árborg þar sem starfsemin fór úr húsi 2022, en ekkert var aðhafst í tvö ár þar sem ákvarðanir stjórnenda skorti. Fyrst var ákveðið að stækka skólann og hafist handa við hönnunarvinnu sem síðan var hætt við. Nú eru taldar líkur á að lokun skólans muni standa yfir í allt að fjögur ár. Meðan á þessu hefur gengið hefur skólinn starfað við þröngan kost í Selásskóla og er talinn hafa haft slæm áhrif á starfsemi hans.
Á haustdögum 2022 varð ljóst að loka þyrfti leikskólanum Hlíð-Sólhlíð í Híðunum vegna myglu. Árið 2023 fór m.a. í að undirbúa framkvæmdir vegna „heildarendurgerðar“ sem hófst síðan 2024. Nú er gert ráð fyrir að skólinn verði loks fullbúinn eftir endurbæturnar í lok ársins 2027.
Í Hagaborg í Vesturbæ Reykjavíkur kom upp mygla í lok ársins 2023. Þar hafi ekkert verið gert og rekja fulltúar Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði það til stjórnunarvanda. Verklok séu nú áætluð haustið 2027 og því útlit fyrir að það taki fjögur ár, heilt kjörtímabil, að klára verkið.
Í bókun sem þau Helgi Áss og Marta lögðu fram á fundinum kemur m.a. fram að hin uppsöfnuðu risavöxnu verkefni á sviði viðhaldsmála í skólum, leikskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum valdi miklu raski á starfsemi þeirra og skapi óþægindi fyrir starfsfólk, börn og foreldra.
Viðbrögð borgarinnar hafi of oft verið óviðunandi, eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafi ítrekað bent á árum saman. Ýmislegt hafi farið úrskeiðis í stjórnskipulagi og vinnubrögðum í þessari grunnþjónustu borgarinnar. Ljóst sé að borgarfulltrúar þurfi að axla ábyrgð. Ákvarðanataka í málaflokknum þurfi að vera fagleg, skjót og skilvirk, en því sé ekki að heilsa hjá borginni.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
