Auknar líkur eru á kvikuhlaupi og jafnvel eldgosi á Sundhnúkagígaröðinni frá 27. september.
Viðvörunarstig á svæðinu hefur verið hækkað og nýtt hættumatskort gefið út.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar en í henni segir að tímabilið þar sem að auknar líkur eru á kvikuhlaupi geti varað í allt að þrjá mánuði.
Þegar atburðir sem hafa orðið á Sundhnúkagígaröðinni síðan í desember 2023 eru skoðaðir kemur í ljós að magn kviku sem þarf að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi áður en kvikuhlaup eða gos hefst getur verið mismikið.
Greining fyrri atburða hefur hins vegar gert Veðurstofunni kleift að áætla á hvað bili rúmmál kvikusöfnunar liggur til að koma af stað næsta kvikuhlaupi eða eldgosi.
Með líkanreikningum, sem byggja á aflögunarmælingum, er hægt að áætla hvenær þessu kvikumagni verður náð að því gefnu að hraði kvikusöfnunar haldist óbreyttur.
Neðri mörk kvikusöfnunar sem þarf fyrir kvikuhlaup eða eldgos eru 11 milljón rúmmetrar en þeim verður náð á laugardaginn.
Eftir mörkunum sem eru 23 milljónir rúmmetra verður náð í kringum 18. desember.
Þegar neðri mörkum hefur verið náð telst svæðið komið inn í tímabil þar sem auknar líkur eru á kvikuhlaupi eða gosi á Sundhnúkagígaröðinni. Tímabilið spannar hátt í þrjá mánuði og gos getur hafist hvenær sem er á tímabilinu.
Ef til eldgoss kæmi er líklegasti upptakastaðurinn áfram talinn vera á milli Sundhnúks og Stóra-Skógfells líkt og í síðustu gosum.
Reikna þarf með að fyrirvari á eldgosi verði stuttur líkt og í fyrri atburðum, en þá hefur fyrirvarinn verið frá 20 mínútum upp í rúma 4 tíma.