Eggjaþjófar sunnan úr Evrópu leggja leið sína til Íslands til þess að taka undan íslenskum fuglum á hverju vori og leyna spellvirkjum sínum vel. Taka þeir egg úr holum lunda, hreiðrum fálka og fleiri fugla sem flokkast í bráðri hættu.
Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að þrír Þjóðverjar hefðu verið gripnir á Schiphol-flugvelli í Hollandi með 51 lundaegg frá Íslandi. Mennirnir voru handteknir og sektaðir en eggjunum komið í dýragarð í Rotterdam. Þar eru nú til sýnis 42 lundar sem komu úr stolnu eggjunum.
Ólafur Karl Nielsen, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir eggjaþjófa sækja í egg fleiri tegunda en lundans. Þar á meðal er fálkinn.
Í samtali við Morgunblaðið segir Ólafur að fálkaeggjaþjófar hafi ekki verið staðnir að verki eða gómaðir með egg í nokkur ár. „Það komu útlendingar hingað ár eftir ár til þess að taka fálkaegg. Og mig grunar að þeir komi ennþá, en þeir leyna ferðum sínum betur en þeir gerðu áður,“ segir Ólafur.
„Það hafa horfið egg úr ákveðnum hreiðrum fálka ár eftir ár,“ bætir Ólafur við.
Hann tekur fram að útlendingar séu ekki þeir einu sem ræni eggjum. „Þeir eru ekki þeir einu sem hafa verið að heimsækja fálkahreiður í þeim tilgangi að ræna eggjum fálkanna. Það hafa Íslendingar líka sennilega gert.“
Eggjunum er smyglað til útlanda, ýmist til útungunar og undaneldis eða til eggjasafnara. „Það eru eldisstöðvar starfandi í Þýskalandi, Danmörku og víðar með fálka til undaneldis sem eiga ættir að rekja til Íslands, og víðar úr Skandinavíu, Grænlandi og Kanada,“ segir Ólafur.
Ýmsar leiðir eru til að smygla eggjum fugla, sem og ungum og hræjum, úr landi. Lundaeggjaþjófarnir voru gómaðir á Schiphol-flugvelli með egg í handfarangri og útungunarvélar í innrituðum farangri, en dæmi eru um að menn séu gripnir með egg um borð í bílum í Norrænu. Þá hafa eggjasendingar verið stöðvaðar á leið úr landinu.
Spurður hvort fálkastofninn megi við því að árlega sé steypt undan pörum með eggjaþjófnaði segir Ólafur nei. „Stofninn er ekki nema svipur hjá sjón. Hann var nú aldrei algengur eða tíður, fálkinn. En að sjá hann núna, fækkunin hér á norðausturhorninu er stórfelld,“ segir hann.
Greint var frá því fyrr á árinu hér á síðum blaðsins að fálkastofninn væri hætt kominn. Viðkoma fálkans var á síðasta ári sú lakasta frá því að mælingar hófust og hefur varpstofn fálkans minnkað um 45% frá árinu 2019. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ólafur þá að fuglaflensa væri eina skýringin.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.
