Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði, telur að ef atburðarásin haldi áfram með sama hætti við Sundhnúkagígaröðina þá sé líklegasta sviðsmyndin sú að það endi með eldgosi en ekki alveg á næstunni.
Þorvaldur á frekar von á því að það dragi til tíðinda seint í nóvember eða desember en fram hefur komið hjá sérfræðingum Veðurstofunnar að út frá fyrri atburðum á Sundhnúksgígaröðinni aukist líkurnar á nýju kvikuhlaupi og eldgosi þegar jafn mikið af kviku hefur safnast fyrir undir Svartsengi og hljóp út í síðasta atburði.
Magnið sem hljóp úr Svartsengi í síðasta eldgosi í júlí var áætlað um 11 til 13 milljónir rúmmetra. Neðri mörkum þessa rúmmáls verður náð um helgina.
„Það hafa í dag safnast í kringum 10 milljónir rúmmetra af kviku undir Svartsengi frá síðasta eldgosi en magnið var vel yfir 20 milljónum rúmmetra fyrir það gos. Það er því töluvert í næsta gos að mínu mati. Fyrr í þessari goshrinu hafa hins vegar komið gos þegar kvikumagnið hefur verið komið í 10-11 milljónir rúmmetra þannig að það er alveg möguleiki á að það geti byrjað að gjósa innan mjög langs tíma,“ segir Þorvaldur við mbl.is.
Eldgosið sem hófst 16. júlí og lauk 5. ágúst var það níunda á Sundhnúkagigaröðinni frá því goshrinan þar hófst í desember 2023. Spurður hvenær hann sjái fyrir sér endalokin á þessari goshrinu segir hann:
„Það er mjög áhugaverð spurning. Mín tilfinning er sú að það er alltaf að hægja á innflæðinu í þessa grynnri kvikugeymslu og þótt það dragi hægt úr þá er það að minnka. Það eru komnir undir tveir rúmmetra á sekúndu flæðið á milli hólfanna og teorían segir okkur að þegar það er komið undir þrjá metra á sekúndu þá sé erfitt að halda svona rásum opnum,“ segir eldfjallafræðingurinn.
Hann segir greinilegt miðað við þessar tölur að „teorían“ sé ekki alveg að ganga upp og að náttúran hagi sér ekki alveg eftir henni.
„Það er alltaf að verða erfiðara og erfiðara að segja til um hvenær þetta geti hætt en eina sem maður sagt af einhverri skynsemi er að ef það heldur áfram að draga úr innflæðinu þá stöðvast þetta á endanum en það getur gerst eftir marga mánuði eða ár.“