Sveitarfélagið Fjarðabyggð beinir þeim tilmælum til íbúa á Stöðvarfirði að sjóða vatn í varúðarskyni þar sem vatnsgæði gætu spillst í vatnsveðrinu sem gengur nú yfir.
„Ef íbúar verða varir við gruggugt neysluvatn eru það skýr merki um mengað neysluvatn. Sérstaklega skuli huga að viðkvæmum notendum (börn, eldra fólk og þau sem eru með viðkvæmt ónæmiskerfi) og ráðlegt sé að þeir hópar sjóði neysluvatnið þar til niðurstöður sýnatöku liggi fyrir,“ segir í tilkynningu frá Fjarðabyggð.
Þar kemur fram að heilbrigðiseftirlit Austurlands muni kanna það eftir helgina hvernig vatnsbólið hefur staðið af sér vatnsveðrið.
